Fjórir austfirskir skólar senda keppendur í tæknikeppnina First LEGO
Lítill vafi getur leikið á áhuga austfirskra ungmenna á tækni og vísindum með tilliti til að ein fimm lið úr fjórum grunnskólum Austurlands taka þátt í First LEGO tækni- og hönnunarkeppninni sem fram fer í Reykjavík á laugardaginn kemur. Keppnisliðin eru aðeins 20 í heildina svo fjórðungur allra keppnisliðanna koma frá Austurlandi.
First LEGO keppnin hefur það markmið að efla áhuga unga fólksins á tækni og styrkja færni þeirra í lausnamiðaðri og skapandi hugsun en það er Háskóli Íslands sem heldur utan um keppni þessa sem fagnar 20 ára afmæli hér á landi 2025. Allir grunnskólanemar á aldrinum 10 til 16 ára geta tekið þátt og sigurvegarnir halda síðar í vetur út í heim til að taka þátt í norrænni First LEGO keppni.
Að þessu sinni mæta til leiks lið frá Seyðisfjarðarskóla, Vopnafjarðarskóla, Egilsstaðaskóla og ein tvö lið frá Brúarásskóla. Lið frá öllum skólunum nema Egilsstaðaskóla fóru langt í fyrra og náði lið Vopnafjarðarskóla þá öðru sætinu.
Keppnin sjálf samanstendur af ýmsum verkefnum en hæst stendur líkast til að forrita LEGO-vélmenni til að leysa ýmsar þrautir á sérstakri keppnisbraut. Þess utan er þema keppninnar nú Neðansjávar og á að beina sjónum ungmennanna að öllu því mikilvæga lífi sem finnst í vatni og sjó.
Hægt verður að fylgjast með keppninni í streymi á vef firstlego.is en hún hefst í Háskólabíói klukkan 10.