Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar til fyrri umræðu

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar tók í vikunni til fyrri umræðu fjárhagsáætlun fyrir Fjarðabyggð og stofnanir vegna ársins 2009. Áætlað er að tekjur Fjarðabyggðar og stofnana nemi 3.665,8 millj. kr. en gjöld 3.545,2 millj. kr. Fjármagnsliðir eru áætlaðir 534,6 millj. kr. Þá er áætlað að um 524,9 millj. kr. fari til framkvæmda. Bæjarstjórn samþykkti að vísa áætluninni til síðari umræðu sem verður 15. janúar n.k.

gpvemim0.jpg

Í forsendum er gert ráð fyrir að útsvarstekjur lækki nokkuð milli ára þar sem útsvarstekna vegna starfsmannaþorpsins á Haga nýtur ekki lengur við auk þess sem starfsfólki sem vann tímabundið hjá Alcoa Fjarðaáli og verktökum í tengslum við gangsetningu álversins mun fækka á fyrri hluta ársins 2009. Samtals eru útsvarstekjur áætlaðar 1.507 millj. kr. Þá eru áætlaðar tekjur vegna fasteignagjalda miðaðar við óbreytt fasteignamat og raunfjölgun eigna eins og hún varð á árinu 2008. Áætluð tekjuaukning fasteignagjalda er um 51,9 millj. kr. og vegur þar þyngst hækkun á fasteignaskatti sem Alcoa-Fjarðaál greiðir á árinu.

Hækkun rekstrargjalda stafar að mestu af nýjum kjarasamningum á árinu. Almennur rekstrarkostnaður eykst vegna leigusamninga við ytri aðila en ýtrasta aðhalds var gætt við áætlun annarra rekstrarliða. Rekstrargjöld allrar samstæðunnar hækka um 163,5 millj. króna, einkum af meiri launakostnaði að fjárhæð 112,1 millj. kr., öðrum rekstrarkostnaði 44 millj. kr. og afskriftum að upphæð 7,3 millj. kr.

Rekstrarniðurstaða er áætluð neikvæð, utan fjármagnsliða, sem nemur 198,4 milljónum kr. í A-hluta en jákvæð sem nemur 120,5 milljónum í samstæðu (A-og B-hluta). Að teknu tilliti til fjármagnsliða er rekstrartap í A-hluta 418,5 milljónir en 414,1 millj. kr. í A-og B-hluta.

Í samstæðu (A-og B-hluta) er veltufé frá rekstri áætlað 203,8 milljónir en handbært fé frá rekstri 315,6 millj. kr. Fjárfestingar samstæðu eru áætlaðar um 468,3 milljónir kr. nettó og afborganir langtímalána 447,5 milljónir króna. Um er að ræða fjárfestingar í Eignasjóði og Eignarhaldsfélaginu Hrauni upp á 300 milljónir,í Hafnarsjóði 134 milljónir, í Veitustofnun 52,8 milljónir kr. og öðrum B-hluta fyrirtækjum 8,1 millj. kr.

 

Sjá framsögu Helgu Jónsdóttur bæjarstýru um fjárhagsáætlunina á vef Fjarðabyggðar, www.fjardabyggd.is.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.