Fleiri hundruð nutu sín á Beint frá býli deginum í Fljótsdal

Allt gekk eins og í sögu á Beint frá býli deginum austanlands um liðna helgi en sá var að þessu sinni haldinn við bæinn Egilsstaði í Fljótsdal. Talið er að kringum 500 manns hafi þegið heimboð þann dag.

Beint frá býli dagurinn er haldinn árlega á einum stað í hverjum landshluta og þar hugmyndin að kynna og koma á framfæri þeim fjölda smáframleiðenda í sveitum landsins sem vinna margvíslegar vörur úr nærhéraði.

Það var og raunin að Egilsstöðum í Fljótsdal þar sem fyrirtækið Sauðagull hefur um nokkurra ára skeið framleitt matvæli úr íslenskri sauðamjólk auk þess að framleiða ís á gamla mátann úr náttúrulegum hráefnum.

Gestum gafst kostur á að skoða framleiðsluna sem og vinnslueldhúsið á staðnum og var mikill áhugi á því að sögn Ann-Marie Schlutz sem stendur að baki Sauðagulls. Jafnframt naut smáfólkið þess að fá að komast í návígi við hin ýmsu dýr á staðnum og hafði skemmtun af.

Enginn fór svangur af staðnum enda fylktu einir þrettán aðrir austfirskir smáframleiðendur liði þennan dag í samfloti við Sauðagull og buðu smakk og vörur sínar til sölu. Þar smáframleiðendur á borð við Lilju Kryddjurtir, Brauðdagar, Fiskverkun Kalla Sveins, Geitagott, Geislar Gautavík og Félagsbúið Lindarbrekku svo fáeinir séu nefndir.

Fjöldi smáframleiðenda kynnti vöruúrval sitt á sunnudaginn var og var mikil almenn gleði með daginn bæði af þeirra hálfu og gesta almennt. Mynd Oddný Anna Björnsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.