Flestir kettir komast um síðir á góð heimili

Allnokkur hópur fólks, nánast alls staðar á Austurlandi, hefur það sem ástríðu og áhugamál að koma til bjargar dýrum sem úti eru í vetrarkuldanum og þá sérstaklega köttum. Þar er bæði um týnda heimilisketti að ræða sem og nokkurn fjölda vergangs- og villikatta sem þvælast um hér og þar á Austurlandi.

Þetta eru samtökin Villikettir á Austurlandi sem er ein deild dýraverndunarsamtakanna Villikatta hvers höfuðstöðvar eru í Reykjavík. Það er Sonja Rut Rögnvaldsdóttir sem fer fyrir Villiköttum á Austurlandi. Hún hefur komið upp ágætri aðstöðu að Randabergi, skammt frá Egilsstöðum, til að hýsa þær kisur sem reglulega finnast hér og þar, oftar en ekki matarlausar og kaldart. Það hefur hún gert allar götur frá stofnun austfirsku deildarinnar árið 2018.

Það segir kannski sitt um umfangið austanlands að frá stofnun hafa samtökin alls komið alls yfir 300 köttum til hjálpar og það nánast alls staðar af á Austurlandi. Félagsmenn bregðast skjótt við öllum hjálparbeiðnum og eða ábendingum um ketti sem illa fer um hér og þar og koma þeim í húsaskjól og fæði sé þess nokkur kostur.

Athvarf á Egilsstöðum og Reyðarfirði


Samtökin eiga líka samastað fyrir dýrin á Reyðarfirði ef þörf er á og er þörfin sannarlega á stundum æði mikil. Þegar verst lét voru félagsmenn að hýsa hvorki fleiri né færri en 45 ketti á einum og sama tímanum.

„Heilt yfir reynum við að miða við að hafa ekki fleiri en þetta fimmtán til tuttugu ketti hjá okkur á hverjum tíma til að allir fái þá athygli sem þeir þurfa,“ útskýrir Sonja.

Samtökin hafa líka reitt sig duglega á fósturfjölskyldur fyrir ketti sem finnast á vergangi og segir Sonja að góðu heilli séu margir sem rétti hjálparhönd með þeim hætti. Fólk er ekki endilega tilbúið í þá skuldbindingu sem fylgir því að halda gæludýr en er oft tilbúið að hafa þá hjá sér tímabundið á meðan þeim er fundið framtíðar heimili.

Flestir fyrrum heimiliskettir


Aðspurð um hversu stórt hlutfall katta sem til samtakanna koma eða er tilkynnt um séu villikettir telur Sonja að stór meirihluti katta sem afskipti eru höfð af séu fyrrum heimiliskettir. Þeir séu því auðveldari í fóstur því villikettir vilji alls ekki eiga nein samskipti við manninn heilt yfir.

„Maður sér það tiltölulega fljótlega hvort kettirnir eru villikettir eða eru að einhverju leyti vanir mannfólkinu. Ég myndi halda að stór meirihluti þeirra katta sem við tökum við eða finnum hafi á einhverjum tímapunkti verið heimiliskettir sem annaðhvort sluppu út og fundust aldrei eða var beinlínis hent út á gaddinn. Því miður er alltaf eitthvað um hið síðarnefnda.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.