Fljótsdalshreppur lækkar eitt sveitarfélaga útsvarshlutfall
Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir • Skrifað: .
Eitt sveitarfélag í landinu hyggst lækka útsvarshlutfall frá því sem var í fyrra. Það er Fljótsdalshreppur, sem lækkar úr 13,03% í 12%. Fimmtíu og átta sveitarfélög hækka útsvarshlutfallið.
Lögum samkvæmt ákveður og auglýsir fjármálaráðuneytið árlega staðgreiðsluhlutfall opinberra gjalda fyrir komandi ár, en það er samtala af tekjuskatthlutfalli og meðalhlutfalli útsvars samkvæmt ákvörðunum sveitarfélaga. Nýverið voru samþykkt á Alþingi lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum í ljósi versnandi afkomu hins opinbera vegna þess mikla samdráttar sem nú blasir við í íslensku efnahagslífi. Meðal þeirra ráðstafana var hækkun á tekjuskatthlutfalli einstaklinga úr 22,75% í 24,1% og á hámarkshlutfalli útsvars úr 13,03% í 13,28%.Á árinu 2009 verður tekjuskatthlutfallið því 24,1% í stað 22,75% á yfirstandandi ári. Þá verður meðalútsvar á árinu 2009 samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarfélaga 13,11% en var 12,97%
á árinu 2008.Staðgreiðsluhlutfall ársins 2009 verður samkvæmt því 37,2% í stað 35,72% á þessu ári og hækkar samkvæmt því um 1,48 prósentustig milli ára.Sveitarfélögin geta ákveðið útsvar á bilinu 11,24% til 13,28%. Af 78 sveitarfélögum leggja 54 þeirra á hámarksútsvar, þar af nýtir eitt þeirra, Bolungarvíkurkaupstaður, sérstakt 10% álag sem þýðir að útsvarshlutfallið verður 14,61%.
Þrjú sveitarfélög, Skorradalshreppur, Helgafellssveit og Ásahreppur, leggja á lágmarksútsvar, 11,24%. Eitt sveitarfélag, Fljótsdalshreppur, hefur ákveðið að lækka útsvarshlutfallið frá því sem var á þessu ári, úr 13,03% í 12;00% en 58 munu hækka það.Útsvarshlutfall sveitarfélaga 2008-2009
Sveitarfélag
2008
2009
Langanesbyggð
13,03%
13,28%
Seyðisfjarðarkaupstaður
13,03%
13,28%
Fjarðabyggð
13,03%
13,28%
Vopnafjarðarhreppur
13,03%
13,28%
Fljótsdalshreppur
13,03%
12,00%
Borgarfjarðarhreppur
13,03%
13,28%
Breiðdalshreppur
13,03%
13,28%
Djúpavogshreppur
13,03%
13,28%
Fljótsdalshérað
13,03%
13,28%
Sveitarfélagið Hornafjörður
13,03%
13,28%
Meðaltal yfir landið
12,97%
13,01%
Persónuafsláttur hækkar
Á árinu 2009 verður persónuafsláttur hvers einstaklings 506.466 krónur, eða 42.205 krónur að meðaltali á mánuði í stað 34.034 króna, sbr. árið í ár. Hækkunin milli ára nemur samtals 24%.Að sama skapi hækka skattleysismörk umtalsvert. Í dag eru skattleysismörkin liðlega 99 þúsund krónur á mánuði en verða 118 þúsund krónur á mánuði frá og með 1. janúar 2009 (að teknu tilliti til 4% lífeyrissjóðsiðgjalds). Hækkunin nemur 19,1%. Þetta þýðir svo dæmi sé tekið að skattgreiðslur einstaklings með 250 þúsund króna mánaðarlaun lækka um 4.600 krónur á mánuði eða tæp 2%.
Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.