Fólk á ekki lengur að bera harm sinn í hljóði

Áföll á áföll ofan hafa dunið á Austfirðingum síðustu vikur eftir svipleg andlát í samfélaginu. Samráðshópur um áfallahjálp á Austurlandi er áfram virkur en fjöldi fólks hefur nýtt sér þjónustu hans að undanförnu.

„Eitt lykilatriði í svona mikilvægri teymisvinnu, er að þar ríki gott traust á milli fagaðilanna sem að þessu starfi koma. Þörfin fyrir sálræna aðstoð var strax metin mikil og er enn.

Þegar stór þverfaglegur hópur vinnur þétt saman, þá er líklegra að hann nái til fleiri sem þurfa á aðstoð að halda við að vinna úr sorg og áföllum.

Þegar þverfaglegur hópur með mismunandi sérþekkingu, miðlar reynslu og vinnur svo þétt saman, eins og við gerum, þá teljum við árangurinn verða meiri í því vandasama og viðkvæma starfi sem sálgæsla og sálrænn stuðningur eru,“ segir Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, sóknarprestur í Austfjarðaprestakalli.

Áfallahjálp er alls staðar


Heilbrigðisstofnun Austurlands leiðir hópinn en í honum eru að auki fagaðilar frá Rauða krossinum, félagsþjónustu sveitarfélaganna, lögreglunni og Þjóðkirkjunni. Fjöldi fólks hefur leitað þjónustu hópsins síðustu vikur, ýmist í gegnum minningarstundir, áfallamiðstöðvar sem opnaðar voru í Neskaupstað og á Breiðdalsvík og síðan með beinum samtölum.

„Það er misjafnt hvort fólk leitar sjálft til okkar eða að við fáum ábendingar frá kannski vinum, starfsfélögum eða vandamönnum um einstaklinga sem þurfi að huga betur að. Þannig hjálpast allir að við áfallahjálp.

Hún á sér líka stað inni á heimilum, á vinnustöðum og alls staðar þar sem fólk hugar að hverju öðru. Vert er að minna líka á að sorg núna getur kallað fram fyrri áföll. Hér áður átti fólk að bera harm sinn í hljóði, ekki ræða sáran missi, ekki tala um það sem gerðist og olli sorginni.

En í dag erum við sem betur fer meðvitaðri um að sorgin hverfur því miður ekki þó hún sé þögguð og reynt að kæfa hana. Reynslan hefur verið að kenna okkur hið gagnstæða, að það sé betra að hugsa upphátt með einhverjum sem viðkomandi treystir og leita eftir stuðningi og hjálp.“

Hvar er hægt að fá áfallahjálp á Austurlandi?


Hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) er hægt að senda póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða hringja á heilsugæslu HSA og fá samtal við hjúkrunarfræðing í síma 470-3000 á dagvinnutíma. Sjá upplýsingar um opnunartíma á vefsíðu stofnunarinnar http://www.hsa.is

Hjá kirkjunni eru prestar til viðtals fyrir hjálp eða sálgæslu eins og óskað er eftir:
Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, Fáskrúðsfirði, 897 1170, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Sigríður Rún Tryggvadóttir, 698 4958, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Arnaldur Arnold Bárðarson, Breiðdalsvík, 766 8344, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Benjamín Hrafn Böðvarsson, 861 4797, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Ingibjörg Jóhannsdóttir, djákni, 760 1033, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Félagsþjónustan í Múlaþingi 470 0700
Félagsþjónustan í Fjarðabyggð 470 9015 fyrir ráðgjöf og upplýsingar

Hjálparsími Rauða krossins 1717 er alltaf opinn og þar er einnig hægt að ná sambandi við ráðgjafa í gegnum netspjall.

Fyrirlestur um sorg barna


Þá verður í næstu vik fyrirlestur um sorg barna og unglinga í Eskifjarðarkirkju. Þar mun Matthildur Bjarnadóttir, prestur, fara yfir helstu einkenni barna í sorg á ólíkum þroskaskeiðum og hvað gagnast börnum í að takast á við missi. Fyrirlesturinn verður í Eskifjarðarkirkju fimmtudaginn 26. september klukkan 17:00.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.