Frá barborðinu á leiksviðið í Fjarðarborg

Leikarinn Gunnar Smári Jóhannsson sýnir á morgun einleik sinn „Félagsskapur með sjálfum mér“ í Fjarðarborg á Borgarfirði en leikritið var tilnefnt til fernra Grímuverðlauna í ár. Gunnar Smári þekkir ágætlega til í Fjarðarborg þar sem hann vann áður sem barþjónn.

„Ég vann sem barþjónn á Bræðslunni árið 2018. Ég kynntist þá þessum fimm köllum sem voru á bakvið reksturinn, sem var mjög skemmtilegt.

Ég kem frá Tálknafirði og keyrði þetta sumar alla leið til að vinna á barnum í þrjá daga. Ég hafði verið að vinna í Skrímslasetrinu á Bíldudal og stjórnandinn þar hafði spurt hvort ég nennti að fara alla þessa leið – og ég sagði bara já,“ segir Gunnar Smári sem sá ekki eftir því.

„Ég elskaði tískusýninguna sem haldin var á sunnudeginum (Borgfirðingar sýna þar óskilafatnað frá Bræðslunni). Hún sýnir hvað er hægt að gera margt skemmtilegt,“ bætir hann við.

Borgfirðingar hugsa vel um félagsheimilið


Vestfirðingar eru ekki óvanir að keyra langar vegalengdir og Gunnar Smári hefur komið víða við á leikferlinum. „Ég hef leikið í flest öllum félagsheimilum landsins. Ég tók þátt í leikritinu „Ómari Orðabelgi“ sem var sýnt fyrir leikskólabörn um allt land,“ segir hann.

Leiksviðið í Fjarðarborg var þó ekki notað í þeirri ferð en þótt nóg væri að gera á barnum yfir Bræðsluhelgi gat Gunnar Smári aðeins virt fyrir sér aðstæður. „Þetta er stórt og mikið hús. Það er mjög jákvætt að þessi hópur hafi tekið að sér húsið því við sjáum víða um land að félagsheimilin grotna niður þegar fólk flytur í burtu.

Það er greinilegt að Borgfirðingar eru að gera eitthvað rétt, um daginn var vinsælasti uppistandari landsins þarna og fullt út úr dyrum. Það er mikil samkeppni í afþreyingu og því geta Borgfirðingar verið stoltir af því hvað atburðirnir eru vel sóttir.“

Horft upp í gegnum tárin


Leikritið sem Gunnar Smári sýnir byggir á reynslu hans. Hann missti báða foreldra sína fyrir 12 ára aldur og síðan afa sinn og ömmu áður en hann fullorðnaðist. Hann greinir þó þessa sögu með húmorinn að vopni.

„Þetta voru sjö ár af ævi minni þar sem það var dauðsfall annað hvert ár. Þetta hljómar niðurdrepandi en ég átti samt yndislega æsku umvafinn samheldnu samfélagi. Við systkinin vorum fjögur og við tókumst á við þetta eins og Gísli á Uppsölum, með að horfa upp í gegnum tárin.“

Sýningin var tilnefnd til fjögurra Grímuverðlauna í ár: fyrir leikstjórn, leikara í aðalhlutverki, besta handritið og sem sýning ársins. „Þetta er sýning sem er sett upp af ástríðu, elju og þrautseigju. Í henni er mikill efniviður og tilfinningarússíbani á 70 mínútum.“

Sýningin er hluti af dagskránni í kringum hið árlega Dyrfjallahlaup sem fram fer á laugardag. Gunnar Smári er kominn austur og hlakkar til helgarinnar. „Ég bý nú í höfuðborginni en reyni að fara vestur þegar ég get. Ég vona að Borgarfjörður verði minn staðgengill Tálknafirði til að takast á við höfuðborgarógleðina,“ segir Gunnar Smári að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.