Fréttamolar úr Fljótsdalsstöð í desember 2024

Fréttabréf Landsvirkjunar með fréttum úr Fljótsdalsstöð og nágrenni frá síðustu mánuðum.

Sjálfbærniúttekt í september


Yfirgripsmikil úttekt á rekstri Fljótsdalsstöðvar fór fram í september, samkvæmt alþjóðlegum staðli um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana (Hydropower Sustainability Standard). Með úttektinni fæst staðfesting á sjálfbærni stöðvarinnar og þá um leið upplýsingar um hvar gera má betur.

Úttektin fól í sér vettvangsskoðun, rýni gagna og viðtöl við hagaðila Fljótsdalsstöðvar. Þrír úttektaraðilar voru hér á landi þessa viku sem úttektin stóð og tóku yfir 50 viðtöl við 68 hagaðila, bæði á höfuðborgarsvæðinu og hér fyrir austan. Tilgangur viðtalanna var meðal annars að staðfesta gögn og ferla, jafnframt að hlusta eftir sjónarmiðum, samskiptum og upplifun fólks varðandi starfsemi og rekstur stöðvarinnar. Öllum þeim sem lögðu okkur lið í þessari vegferð eru færðar þakkir fyrir.

Í samræmi við reglur staðalsins fara niðurstöður úttektarinnar í 60 daga opinbert umsagnarferli þar sem almenningur og aðrir hagaðilar geta komið athugasemdum og ábendingum á framfæri. Þetta ferli fer af stað í janúar og verður auglýst sérstaklega.

Lokaniðurstaða úttektarinnar ætti að liggja fyrir á vormánuðum.

Kraftmikill sumarvinnuhópur að störfum


Eins og undangengin ár var sumarvinnuhópur starfandi í Fljótsdalsstöð í sumar, en hann samanstóð af sjö ungmennum og tveimur verkstjórum. Verkefni sumarsins voru sem fyrr mjög fjölbreytt. Annars vegar var um að ræða verkefni sem tengjast Fljótsdalsstöð og snúa fyrst og fremst að umhirðu svæða. Hins vegar verkefni í gegnum „Margar hendur vinna létt verk“, sem snýst um að taka virkan þátt í nærsamfélögum aflstöðva og bjóða þannig fram aðstoð sumarvinnuhóps í verkefni sem lúta að ræktun, hreinsun, viðhaldi og öðrum umhverfistengdum verkefnum.

Sumarvinnuhóp er sérstaklega þakkað fyrir samstarfið og góða vinnu í sumar.

Tveir styrkir úr samfélagssjóði til Austurlands


Úthlutað var úr samfélagssjóði Landsvirkjunar í annað sinn á árinu í ágústmánuði og fengu tvö verkefni á Austurlandi styrk að þessu sinni. Austurbrú fékk 500 þúsund krónur vegna BRAS menningarhátíðar barna og ungmenna og Ljósmyndasafn Austurlands/Héraðsskjalasafn Austfirðinga fékk 500 þúsund krónur til kaupa á búnaði sem nýtist við söfnun upplýsinga um ljósmyndir í safnakosti Ljósmyndasafnsins. Úthlutað er úr sjóðnum þrisvar sinnum ár hvert, en um sjóðinn má lesa á vefsvæði Landsvirkjunar: www.landsvirkjun.is/samfelagssjodur.

Aðrar fréttir af rekstri


Ástandsskoðun véla í Fljótsdalsstöð fór fram núna á haustmánuðum, en á hverju hausti eru allar vélar teknar úr rekstri í einhvern tíma og þær skoðaðar til að tryggja sem öruggastan rekstur.

Stóru verkefni lauk í Kárahnjúk í sumar, sem sneri að því að efla hrunvarnir í hnjúknum. Meðal annars var sett upp ný hrunvarnargirðing.

Talsvert hefur verið unnið í endurbótum á sandgildrum á austurbakka Hálslóns síðastliðin sumur, en aldan á Hálsóni hefur verið gildrunum erfið og hefur þurft að styrkja þær til að þær nái að sinna hlutverki sínu sem best.

Vinna við endurbætur í botnrásarskurði Ufsarlóns fór í gang síðsumars. Ekki náðist að klára verkefnið vegna veðurs, en stefnt er á verklok sumarið 2025.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.