Frumsýna baráttumyndband gegn sjókvíaeldi á samstöðufundi

VÁ – félag um verndun fjarðar, hefur boðað til samstöðufundar gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði í félagsheimilinu Herðubreið á morgun. Þar verður frumsýnt myndband sem á að vekja athygli á baráttu Seyðfirðinga sem ætla á táknrænan hátt að draga línu í sjóinn.

„Við ætlum með þetta myndband út um allan heim og fá fólk með okkur í lið til að þrýsta á stjórnvöld um að gera það sem er rétt í þessu máli,“ segir Benedikta Guðrún Svavarsdóttir, formaður VÁ.

Myndbandinu er leikstýrt af Silju Hauksdóttur, sem meðal annars hefur leikstýrt kvikmyndunum Dís og Agnes Joy auk þáttanna um Stelpurnar og Ástríður en klippt af Kristjáni Loðmfjörð, sem um tíma bjó á Seyðisfirði en hann hefur margar helstu þætti og kvikmyndir Íslands síðustu ár, meðal annars Verbúðina og Villibráð.

Yfirskrift fundarins er: „Við drögum línu í sjóinn“ og byggir myndbandið meðal annars á því. „Við gefum það út að við ætlum að vernda Seyðisfjörð. Í fjögur ár höfum við sagt að við viljum ekki sjókvíaeldið og á það hefur ekki verið hlustað. Nú erum við að snúa vörn í sókn,“ segir Benedikta.

„Þetta er í andstöðu við 75% íbúa, samkvæmt þeirri skoðanakönnun sem síðast var gerð. Á það verður að hlusta ef virða á íbúalýðræðið í landinu.“

Meðal þeirra sem koma fram á fundinum eru ljósmyndarinn Chris Burkard, Ómar Ragnarsson og Árni Pétur Hilmarsson, afkomandi eins þeirra sem leiddu mótmæli Mývetninga gegn virkjun Laxár í Aðaldal. Tónlistarmaðurinn Benni Hemm Hemm spilar og opnuð verður listsýning um samstöðuna gegn sjókvíaeldinu.

„Við erum að fagna deginum þegar við vernduðum Seyðisfjörð. Við erum stolt af bænum okkar og því sem við erum að vernda: hafinu, náttúrunni og samfélaginu,“ segir Benedikta að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.