Frumvarp um breytingar á lögum um bankaleynd lagt fram.

Fram er komið frumvarp á Alþingi sem er ætlað að tryggja að eigendur hlutdeildarskírteina í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum geti fengið upplýsingar um meðferð fjármálastofnana á fjármunum þeirra. Að sögn Hilmars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns hjá Regula lögmannsstofu, sem gætir hagsmuna hundruða einstaklinga sem töpuðu fjármunum í peningamarkaðssjóðum, er framlagning þessa frumvarps mjög mikilvægt skref í átt til réttlætis fyrir umbjóðendur hans.

12870019.jpg

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Björn Bjarnason alþingismaður en alls eru 15 þingmenn Sjálfstæðisflokksins flutningsmenn frumvarpsins.

Í tilkynningu frá Hilmari Gunnlaugssyni segir að fjármálastofnanir hafi á síðustu mánuðum ekki verið tilbúnar til að afhenda hlutdeildarskírteinishöfum upplýsingar sem þeim eru nauðsynlegar við mat á því, hvort þeir eigi bótakröfu á fjármálastofnanir eða aðra, vegna þess tjóns sem þeir urðu fyrir. ,,Hafa einstaklingar þurft að höfða mál eða leita aðstoðar úrskurðarnefnda einungis til að fá upplýsingar sem gera þeim kleift að meta réttarstöðu sína. Slík málaferli eru bæði kostnaðarsöm og tímafrek. Þau leiða því til þess, að fólk sækir síður rétt sinn. Mjög mikilvægt er, að heiðarlegt uppgjör fari fram í eftirmála bankahrunsins og til að slíkt sé mögulegt, þurfa sjálfir eigendur þeirra fjármuna sem sýslað var með, viðskiptavinir bankanna, að fá aðgang að upplýsingum um það sem gert var með þeirra fjármunum. Því hefur verið haldið fram að hlutdeildarskírteinishafar geti á grundvelli núgildandi laga, átt þann rétt. Afstaða fjármálastofnana hefur hins vegar verið sú, að trúnaðarskylda gagnvart viðsemjendum peningamarkassjóðanna og útgefendum þeirra fjármálagerninga sem um ræði, sé ríkari en réttur hlutdeildarskírteinishafa til upplýsinga. Á þetta er ekki hægt að fallast og til að taka af öll tvímæli, hefur frumvarp þetta verið lagt fram.

Talsmenn Réttlætis.is fagna mjög framlagningu frumvarpsins og telja nauðsynlegt að það nái fram að ganga. Fjölmargir einstaklingar sem hafi orðið fyrir tjóni hafi veigrað sér við að óska þjónustu lögmanns vegna þeirra erfiðleika sem fólk hefur lent í að fá upplýsingar í málinu. Fyrirsvarsmenn Réttlætis.is telja það ekki samræmast ríkisbanka að bregða fæti fyrir upplýsingaöflun einstaklinga um afdrif þeirra eigin fjármuna. Aðhald eigenda sé nauðsynlegt, því bankahrunið hafi leitt í ljós, að aðhald eftirlitsaðila hafi engan veginn dugað. Um mikla réttarbót sé að ræða, jafnvel þó hún verði ekki talin breyta gildandi rétti, einungis skýra hann. Réttlæti.is skorar á aðra þingmenn að gera málið að sínu og tryggja því eðlilegan framgang á þessu þingi."

Hilmar segir NBI hf. hafa hafnað að upplýsa um inntak samnings sem gerður var í október á milli NBI hf. og dótturfélags bankans, Landsvaka um kaup á öllum eignum peningamarkaðssjóða Landsbankans. Sá samningur hafi verið forsenda þess, að umbjóðendur hans fengu 68,8% af heildareign sinni en ekki eitthvað annað. Því sé um grundvallarskjal að ræða. Nái frumvarp þetta fram að ganga sé augljóst, að bankinn gæti ekki staðið í vegi fyrir því, að umbjóðendur hans geti fengið afrit af þessum samningi á milli móður- og dótturfélags um kaup á eignum umbjóðenda hans og annarra hlutdeildarskírteinishafa. Hann fagnar því mjög framlagningu þessa máls og kveðst ekki trúa öðru, en að þingheimur muni tryggja að frumvarpið verði að lögum á þessu þingi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.