Fyrstu nemar til jarðfræðisetursins í vor

 Gert er ráð fyrir að starfssemi jarðfræðiseturs á Breiðdalsvík verði komin vel af stað á vordögum, með móttöku fyrstu jarðfræðinemanna. Hugmyndin að Jarðfræðisetrinu kviknaði upprunalega hjá Ómari Bjarka Smárasyni jarðfræðingi sem var áhugamaður um að opnað yrði minjasafn um læriföður hans og prófessor, dr. George Leonard Patrick Walker.

jarfrisetur__breidalsvk.jpg

Þróunarfélag Austurlands, sem um þessar mundir kynnir verkefni sín skipulega á vefnum www.austur.is, segir frá aðkomu sinni að tilurð jarðfræðisetursins:

 

Dr. Walker starfaði á Austurlandi á árunum 1954 – 1965 og kortlagði á þeim árum stóran hluta austfirska jarðfræðistaflans. Vaxtarsamningur Austurlands og Þróunarfélag Austurlands komu að undirbúningi, stofnun og uppbyggingu setursins.

Markmiðið var frá upphafi að gera almenningi og fræðimönnum kleift að “feta í fótspor Walkers” með því að læra um rannsóknir hans og kenningar um leið og mögulegt væri að skoða það svæði sem dr. Walker rannsakaði. Haft var eftir dr.
Walker sjálfum að Ísland hefði kennt honum jarðfræði og því sjálfsagt að gera öðrum kleift að læra af honum.

Breiðdælingar tóku vel í hugmyndir um uppsetningu Jarðfræðiseturs og ákveðið var að hefjast handa við að koma því upp í Gamla kaupfélaginu á Breiðdalsvík. Fyrsta skrefið í löngu ferli er að koma upp því minjasafni sem nú má sjá vísi að, en einnig hefur verið hafist handa við að byggja upp víðtækt tengslanet vísinda- og fræðimanna sem hafa hug á að koma með nemendur sína til Austurlands til að nema.

Stefnumótunarvinna Jarðfræðisetursins tekur mið af hugmyndum aðstandenda um möguleika til framtíðar. Í henni birtist mikill metnaður um framtíð jarðfræði á Íslandi sem og möguleika innlendra og erlendra aðila á að læra um hana og tileinka sér á mismunandi stigum eftir áhuga hvers og eins.


Jarðfræðisetrið á Breiðdalsvík er upplýsingaveita og fræðslusetur íslenskrar jarðfræði. Setrið er miðstöð rannsókna og fræðimennsku í jarðfræði og byggir á arfleifð dr. George Walker.


Mikil áhersla er á samstarfi og samvinnu þeirra aðila sem eru að og munu í framtíðinni stunda jarðfræðitengdar rannsóknir eða bjóða upp á jarðfræðitengda afþreyingu. Ísland er óþrjótandi uppspretta rannsóknarefna, og upplifunar. Því er mikilvægt að aðgengi og markaðssetning sé samhæfð og samstíga, innanlands og utan.

 

Að setrinu standa Breiðdalshreppur, Stapi Jarðfræðistofa og Þróunarfélag Austurlands með stuðningi ýmissa aðila innan fjórðungs og utan. Uppsetning setursins og opnun hefur verið styrkt af Vaxtarsamningi Austurlands, Menningarráði Austurlands, Íslenska ríkinu og fleiri aðilum.

Starfsemi jarðfræðisetursins er margþætt:


• Minjasafn dr. Walkers á annarri hæð Gamla kaupfélagsins


• Samvinna við rannsóknaraðila innanlands og utan


• Stuðningur við rannsóknir tengdar Austurlandi


• Miðlun upplýsinga um jarðfræði og steindir til ferðamanna, fræðimanna og almennings


• Samvinna við ferðaþjónustuaðila og handverksfólk í nærumhverfi

 

Það er von aðstandenda að tilurð setursins verði jarðfræðivísindum til framdráttar hérlendis og að minningu dr. George Walker verði sómi sýndur með starfsemi þess.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.