Geðlestin á ferð um Austurland

Geðlesin, fræðsluerindi og skemmtun á vegum Geðhjálpar, ferðast um landið þessa dagana í tilefni af Gulum september, vitundarátaki um geðheilsu. Opinn viðburður verður á hennar vegum á Vopnafirði annað kvöld.

Gulur september er forvarnarátak sem er ætlað að auka meðvitund fólks um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna.

Kvölddagskráin hefst á stuttri kynningu á Geðhjálp og starfi samtakanna. Eftir það verður farið yfir mikilvægi reglulegrar geðræktar út lífið og ýmsar leiðir þar nefndar.

Þá mun einstaklingur segja frá sinni reynslu af geðrænum áskorunum og hvernig bata var náð og hvaða verkfæri hafa reynst best. Eftir reynslusöguna verða umræður/samtal.

Í lokin stíga þeir félagar Emmsje Gauti og Þormóður á svið og leika nokkur lög til að árétta að geðrækt er líka gleði og skemmtun. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir í safnaðarheimili Vopnafjarðarkirkju klukkan 20:00 á morgun. Annar slíkur viðburður er í Nýheimum á Höfn klukkan 20:00 á miðvikudag.

Fulltrúar Geðhjálpar nota einnig tækifærið til að hitta á aðila frá sveitarfélögum, skólum og félagsmálayfirvöldum í ferðinni. Þeir fundir eru í hádeginu og er þar farið yfir ýmsa geðheilsuvísa eða mælikvarða, fjallað um mikilvægi geðræktar, hvernig draga megi úr fordómum og mögulegar leiðir til þess að efla forvarnir. Í tilkynningu segir að markmiðið sé einnig að eiga samtal við heimafólk og hvað helst brennur á því í tengslum við geðrækt og geðheilbrigði. Slíkur hádegisfundur verður á Egilsstöðum.

Mynd: Jón Sigurðsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.