Gefa vöggugjafir til foreldra í Fjarðabyggð

Kjörbúðin og sveitarfélagið Fjarðabyggð hafa gert með sér samkomulag um að gefa nýjum foreldrum í sveitarfélaginu vöggugjöf. Um er að ræða pakka með nauðsynjavörum fyrir fyrstu vikurnar í lífi nýrra barna og foreldra sem hægt er að nálgast í Kjörbúðum í sveitarfélaginu.

„Vöggugjöfin er okkar framlag til þess að bjóða nýjustu íbúa Fjarðabyggðar velkomna í heiminn. Við vitum að það er að mörgu að huga fyrstu vikurnar í lífi barns og okkur finnst auðvitað dásamlegt að geta létt undir með fjölskyldum með þessum hætti.

Við höfum í gegnum tíðina átt í góðu samstarfi við Fjarðabyggð, og það er frábært að taka þetta stóra skref saman,“ segir Bergrún Ósk Ólafsdóttir, verkefnastjóri umhverfis- og samfélagsmála hjá Samkaupum í tilkynningu.

„Fjarðabyggð er stolt af því að fá að taka þátt í þessu verkefni með Samkaupum og vera þar með fyrsta sveitarfélagið til þess. Fjarðabyggð er barnvænt sveitarfélag þar sem börn komast í leikskóla eftir fyrsta aldursár og viljum við gera vel á fyrstu vikum barns með því að létta undir og stuðla að jákvæðri upplifun meðal nýbakaðra foreldra,” er haft eftir Haraldi Líndal Haraldssyni, upplýsingafulltrúa Fjarðabyggðar.

Vöggugjöfin inniheldur meðal annars svo sem bleyjur, blautþurrkur, bossakrem, snuð, lekahlífar, brjóstakrem, barnaolíu og bómull. Hugmyndin byggir á barnsburðarpökkum af svipuðum toga sem þekkjast víða erlendis og innihalda nauðsynjavörur fyrir nokkrar vikur og allt upp í fyrstu mánuðina í lífi barns. Slíkar vöggugjafir hafa notið mikilla vinsælda þar sem þær eru í boði og að sama skapi hlotið töluverða athygli hér á landi.

Sveitarfélagið veitir upplýsingar um fjölgun á heimili, sem gefur Kjörbúðinni færi á að bjóða stækkandi fjölskyldum möguleikann á að þiggja gjöfina. Velji fjölskylda að þiggja gjöfina er hægt að nálgast nánari upplýsingar á vefsvæði Kjörbúðarinnar og velja að fá gjöfina afhenta í verslun.

Kjörbúðin rekur dagvöruverslanir í þremur byggðakjörnum Fjarðabyggðar: á Eskifirði, Fáskrúðsfirði og í Neskaupstað. „Við viljum að íbúum í nágrenni Kjörbúða líði vel og upplifi öryggi með aðgengi að nauðsynjavörum. En við erum oftar en ekki eina verslunin í þeim bæjum þar sem við störfum og leggjum alltaf höfuðáherslu á að sinna því hlutverki vel, ekki einungis sem matvöruverslun, heldur einnig sem þátttakandi í samfélaginu. Því finnst okkur dýrmætt að fá að styðja við vaxandi fjölskyldur í okkar næsta nágrenni og vonum að gjöfin komi að góðum notum,” bætir Bergrún við.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.