Gefandi að vinna með listamanni á heimsmælikvarða

Framundan er síðasti sýningardagur Rasks, sýningar rithöfundarins Ingunnar Snædal og Agnieszku Sosnowsku ljósmyndara í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Ingunn segir sérstakan heiður að fá að vinna með Agnieszku, sem fengið hefur alþjóðlega athygli fyrir ljósmyndir sínar að undanförnu.

„Ég segi að þetta samstarf hafi verið meira gefandi fyrir mig, því ég hef mánuðum saman búið við þann lúxus að hún sendir mér myndir til að skoða.

Mér hefur alltaf fundist að myndir Agnieszku þurfi engan texta því hún er listamaður á heimsmælikvarða. Fyrst og fremst er það mér heiður að fá að vera með því hún sótti það fast og ég sagði að sjálfsögðu já.

Á vissan hátt féllust mér hendur yfir vinnunni. Ekkert sem ég get sagt jafnast á við myndirnar sem fara beint inn í mann,“ segir Ingunn um samstarfið.

Upptekin af rofi og hrörnun


Ingunn er alinn upp á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal en hefur undanfarin ár búið í Reykjavík. Agnieszka er fædd í Póllandi, fluttist ung til Bandaríkjanna þar sem hún lærði ljósmyndun hefur hefur búið í Hróarstungu í hartnær 20 ár. Þær þekkjast vel og hafa unnið saman áður, mest í því formi að Ingunn hefur lesið yfir eða skrifað texta fyrir Agnieszku.

Ljósmyndir Agnieszku og ljóð Ingunnar „Allt sem er, fer“ er í sýningartexta lýst sem samspili sem sé vitnisburður um þróun lands og eyðingu. „Ef maður elst upp úti á landi þá fara hugmyndir um landnýtingu eða breytingu ekki frá manni, sama hvert maður fer. Hjá mér hafa þær kannski rótast enn frekar upp eftir erfiðan vetur. Ég hef verið töluvert upptekin af rofi og hrörnun eftir að faðir minn lést í vetur,“ segir Ingunn.

Ljóð Ingunnar spilast úr hátalara á sýningunni og kaflar úr því kallast skýrt á við myndirnar á veggjunum en enginn texti er við þær. „Það er klisja að vera með myndir upp á vegg og texta við hliðina. Þess vegna varð ég glöð þegar Agnieszka lagði til að ljóðið yrði ekki skrifað heldur flutt. Það gladdi mig líka þegar fimm manns komu til mín eftir að ég las upp ljóðið á opnuninni og sögðust hafa grátið því ég var glöð með að hafa hreyft við fólki,“ segir Ingunn.

Einstakt auga Agnieszku


Hróður Agnieszku hefur stóraukist eftir að menningarblað New York Times lagði heilsíðu undir nýjustu ljósmyndabók hennar „För“ sem kom út í sumar. „Við Agnieszka höfum ferðast töluvert saman og það er gaman að fara með henni um Ísland. Þótt hún hafi búið hér í 20 ár sér hún nýja hluti sem uppaldir Jökuldælingar eins og ég tökum ekki eftir. Ég var með henni á Írlandi í viku um daginn og ég gapti þegar ég sá myndirnar hennar, þótt ég hefði staðið við hlið hennar þegar þær voru teknar. Þess vegna segi ég að hún sé besti ljósmyndari á Íslandi nú um stundir.“

Sýningin Rask er opin til klukkan 16 í dag, föstudag, í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Síðasti sýningardagur er á morgun laugardaginn 31. ágúst opnunartíminn þá 13-16.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.