Gleðilegt að geta haldið ráðstefnu um kvenna- og kynjasögu á Austurlandi

Ríflega 20 fyrirlesarar taka þátt í ráðstefnu um kvenna- og kynjasögu sem haldin verður á Seyðisfirði og Egilsstöðum á föstudag og laugardag. Saga austfirskra kvenna verður þar í öndvegi.

„Þetta er hugmynd sem kviknaði hjá fræðikonum, bæði sjálfstætt starfandi og innan veggja Háskóla Íslands, sem höfðu samband við okkur og við unnum þetta áfram saman,“ segir Unnur Birna Karlsdóttir sem stýrir Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Egilsstöðum.

Ráðstefnan nær yfir tvo daga, byrjar á Seyðisfirði á föstudagsmorgunn með erindum og heimildarmynd um konur þar úr bænum. Heimakonan Sigríður Matthíasdóttir er fyrst ásamt Þorgerði J. Einarsdóttur, prófessor í kynjafræði með fyrirlestur um Palínu Waage frá Seyðisfiðri en Sigríður hefur unnið að rannsóknum um hana um hríð.

Af öðrum erindum frá Austurlandi má nefna frásögn Sigurgeirs Guðjónssonar af meðferð á andlega veikri konu frá Höfða í Vallahreppi um aldamótin 1900, Erla Dóris Halldórsdóttir segir frá austfirskum konum sem veiktust af berklum, fornleifafræðingarnir Rannveig Þórhallsdóttir og Rannveig Traustadóttir fjalla um landnámskonur á Austurlandi, Sigurborg Hilmarsdóttir fer yfir sögu Kvenréttindafélags Eskifjarðar og Gerður G. Óskardóttir segir frá kvenréttindabaráttu í anda Rauðsokkuhreyfingarinnar á Austurlandi 1975-83.

„Þessi áhugi fræðafólks á heimildum frá Austurlandi er mjög gleðilegur og ánægjulegt að geta veitt þeim brautargengi hér,“ segir Unnur Birna.

Aðgangur á ráðstefnuna er ókeypis og öllum opinn meðan húsrúm leyfir. Austfirðingar geta því kynnt sér dagskrá ráðstefnunnar og komið eða farið eftir því sem þeim hentar. „Við vildum gefa Austfirðingum kost á að sækja svona ráðstefnu, sem yfirleitt eru bara haldnar í Reykjavík, enda er eitt markmið rannsóknasetranna að færa rannsóknir út á land og gefa fólkinu sem þar býr kost á að kynnast þeim.“

Frá athöfn í tilefni kvennafrídags á Seyðisfirði. Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.