Hollvinafélag gömlu kirkjunnar á Djúpavogi fær umsjón hússins
Síðustu sólarhringar hafa vægast sagt verið góðir fyrir Hollvinafélag gömlu kirkjunnar á Djúpavogi. Ekki aðeins opnaði það hús fyrsta sinni með fjölbreyttan markað innandyra í vikunni við frábærar viðtökur heldur og var skrifað undir viljayfirlýsingu þess efnis að félagið taki alfarið yfir rekstur hússins eftirleiðis.
Þar með er ákveðinn draumur aðstandenda vinafélagsins að rætast því undir niðri var það alltaf draumurinn þegar sjálfboðaliðahópurinn hóf að gera upp og einangra kirkjuna gömlu í vetur að skapa þar líf, auðga menningu og ferðaþjónustu og fá leyfi til að gera það til framtíðar.
Það, segir Íris Birgisdóttir, einn forsprakka Hollvinafélagsins, að sé mikill rjómi á kökuna fyrir félagsmenn. Hugmyndin með vinnu við að opna þessa 130 ára gömlu friðuðu kirkju fyrir gestum hafi alltaf verið að þar yrði líf sem flesta daga og þar gætu gestir komið og notið bæði félagsskapar sem og keypt ýmsa þá hluti sem heimafólk er að vinna að. Til þess þyrfti eigandi hússins, sveitarfélagið Múlaþing, auðvitað að gefa leyfi.
„Ég get glöð sagt frá því að sveitarstjóri Múlaþings, Dagmar Ýr Stefánsdóttir, kom við hér hjá okkur og gerði gott betur með því að skrifa undir viljayfirlýsingu þess efnis að við fengjum kirkjuhúsið til umsýslu og reksturs inn í framtíðina. Auðvitað á eftir að greiða úr einhverjum smáatriðum en þetta er stór áfangi sem við sem að félaginu stöndum höfum verið að láta okkur dreyma um.“
Eftir að töluverður fjöldi fólks hafi unnið í sjálfboðavinnu síðustu mánuði við að einangra þessa merku kirkju með það að markmiði að opna þar markað fyrir gestum yfir Hammondhátíðina sem nú stendur yfir hafa viðtökurnar verið lítið minna en frábærar segir Íris.
„Það verið nokkuð stríður straumur til okkar hér síðan við opnuðum í vikunni og við gætum varla verið ánægðari með þær viðtökur. Hér eitt og annað spennandi til sölu sem heimafólk hefur gert í eigin höndum að mestu og við bjóðum að sjálfsögðu kaffi, meðlæti og góðan félagsskap. Svo er í gangi yfir hátíðina sýning og uppboð á mörgum listaverkum sem tengjast Djúpavogi en hægt er að bjóða í verkin. Þeir sem eiga hæst boð á sunnudagsmorguninn kemur hreppa verkin en allur ágóða fer í endurbótasjóð kirkjunnar.“
Lengi vel var vandræðagangur með hvað ætti að gera við gömlu kirkjuna á Djúpavogi en uppsetning hæglætismarkaðar þar innandyra hefur aldeilis hitt í mark. Mynd Aðsend