Grisjast um mannskap í Hraunaveitu
Það fækkar á framkvæmdasvæði Kárahnjúkavirkjunar við Hraunaveitu í dag. Þá fara fimmtíu pólskir starfsmenn heim og koma ekki aftur. Síðustu erlendu starfsmennirnir við framkvæmdirnar fara um leið og vinna leggst af á svæðinu vegna vetrarríkis. Það verður líklega um miðjan nóvember.
Langflestir Pólverjanna sem unnið hafa hjá Ístaki við Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar og við Kárahnjúka fara nú til síns heima.
Í dag fer flugvél frá Keflavík með nokkra pólska starfsmenn Ístaks í Reykjavík, millilendir á Egilsstaðaflugvelli til að taka þar um 50 pólska starfsmenn frá Hraunaveitu og Kárahnjúkum og flýgur svo beint út til Póllands. Í kvöld fara sex Lettar á brott úr Hraunaveitu og á morgun sex Portúgalar og verða þá einvörðungu eftir Íslendingar, um 125 talsins, auk 25 Pólverjar sem fara fljótlega í nóvember til Reykjavíkur að vinna hjá Ístaki þar í einhvern tíma.
Ragna Úlfsdóttir í starfsmannahaldi Ístaks við Hraunaveitu, segir að erfiðlega hafi gengið með millifærslur launa erlendu verkamannanna í upphafi efnahagsþrenginganna hér á landi, en allt sé nú í ágætu lagi með það. ,,Þetta voru einir þrír dagar í byrjun þar sem allt stöðvaðist" segir Ragna ,,Pengingarnir jafnvel týndust í kerfinu. En nú er búið að endurheimta allt og gengur vel að millifæra. Það tekur auðvitað lengri tíma en áður þar sem þetta fer allt í gegnum Seðlabankann sem skammtar gjaldeyrinn. Við höfum líka verið önnum kafnar hér við að útbúa allskyns vottorð fyrir útlendingana til að hafa með sér heim, upp á sjúkratryggingar, atvinnuleysisbætur og fleira."
Ragna rifjar upp að mikið var fjallað um þegar erlendu starfsmennirnir voru fyrst að koma til vinnu við Kárahnjúkavirkjun. Það séu ekki síður fólgin ákveðin kaflaskil í því þegar þeir fara. ,,Þeir hafa staðið sig vel. Sumir voru tvö ár hér á fjöllum. Og um daginn fór íslenskur starfsmaður sem hafði þá verið hér í fimm ár. Hljóðið virðist frekar bjart í Pólverjunum varðandi vinnu í heimalandinu. Þó nokkrir byggingamenn sem bauðst vinna í Reykjavík þáðu hana ekki og sögðust fá vinnu heima."
Upp úr miðjum nóvember verður störfum hætt á virkjunarsvæðinu í Hraunaveitu og þar einvörðungu vaktmenn sem hafa gát á svæðinu í vetur. Næsta vor verður svo farið í lokahnykk framkvæmda og frágang.