Grisjast um mannskap í Hraunaveitu

Það fækkar á framkvæmdasvæði Kárahnjúkavirkjunar við Hraunaveitu í dag. Þá fara fimmtíu pólskir starfsmenn heim og koma ekki aftur. Síðustu erlendu starfsmennirnir við framkvæmdirnar fara um leið og vinna leggst af á svæðinu vegna vetrarríkis. Það verður líklega um miðjan nóvember. 

 

 

 

 

karahnjukar.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Langflestir Pólverjanna sem unnið hafa hjá Ístaki við Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar og við Kárahnjúka fara nú til síns heima.

Í dag fer flugvél frá Keflavík með nokkra pólska starfsmenn Ístaks í Reykjavík, millilendir á Egilsstaðaflugvelli til að taka þar um 50 pólska starfsmenn frá Hraunaveitu og Kárahnjúkum og flýgur svo beint út til Póllands. Í kvöld fara sex Lettar á brott úr Hraunaveitu og á morgun sex Portúgalar og verða þá einvörðungu eftir Íslendingar, um 125 talsins, auk 25 Pólverjar sem fara fljótlega í nóvember til Reykjavíkur að vinna hjá Ístaki þar í einhvern tíma.

Ragna Úlfsdóttir í starfsmannahaldi Ístaks við Hraunaveitu, segir að erfiðlega hafi gengið með millifærslur launa erlendu verkamannanna í upphafi efnahagsþrenginganna hér á landi, en allt sé nú í ágætu lagi með það. ,,Þetta voru einir þrír dagar í byrjun þar sem allt stöðvaðist" segir Ragna ,,Pengingarnir jafnvel týndust í kerfinu. En nú er búið að endurheimta allt og gengur vel að millifæra. Það tekur auðvitað lengri tíma en áður þar sem þetta fer allt í gegnum Seðlabankann sem skammtar gjaldeyrinn. Við höfum líka verið önnum kafnar hér við að útbúa allskyns vottorð fyrir útlendingana til að hafa með sér heim, upp á sjúkratryggingar, atvinnuleysisbætur og fleira."

Ragna rifjar upp að mikið var fjallað um þegar erlendu starfsmennirnir voru fyrst að koma til vinnu við Kárahnjúkavirkjun. Það séu ekki síður fólgin ákveðin kaflaskil í því þegar þeir fara. ,,Þeir hafa staðið sig vel. Sumir voru tvö ár hér á fjöllum. Og um daginn fór íslenskur starfsmaður sem hafði þá verið hér í fimm ár. Hljóðið virðist frekar bjart í Pólverjunum varðandi vinnu í heimalandinu. Þó nokkrir byggingamenn sem bauðst vinna í Reykjavík þáðu hana ekki og sögðust fá vinnu heima."

Upp úr miðjum nóvember verður störfum hætt á virkjunarsvæðinu í Hraunaveitu og þar einvörðungu vaktmenn sem hafa gát á svæðinu í vetur. Næsta vor verður svo farið í lokahnykk framkvæmda og frágang.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.