Grunnskólanemar í Fjarðabyggð kynnast verknámi og skólanum með reglulegum heimsóknum í VA
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. apr 2025 17:07 • Uppfært 02. apr 2025 17:10
Verkmenntaskóli Austurlands varð síðasta haust fyrsti austfirski skólinn til að hljóta Íslensku menntaverðlaunin. Þau fékk skólinn fyrir hvernig staðið er að kynningum á verknámi til grunnskólanema í Fjarðabyggð. Stjórnandi verkefnisins segir kannanir sýna að námskynningarnar nái þeim markmiðum sem að var stefnt.
Skólinn fékk verðlaun fyrir framúrskarandi iðn- eða verkmenntun. Skólinn hefur síðustu ár boðið nemendum úr 9. og 10. bekk grunnskólanna að taka tvö námskeið úr VA sem valfög.
Birgir Jónsson, starfandi skólameistari, hefur leitt verkefnið síðustu ár. Hann segir það eiga sér langan aðdraganda og hafa tekið miklum breytingum. Fyrst hafi starfsfólk skólans kynnst því í Svíþjóð árið 2013 þar sem slíkt samstarf hafi tíðkast í langan tíma. Úr varð að nemendum úr vinnuskóla Fjarðabyggðar var boðið í heimsókn í VA og gátu varið þar tíma í verknámi sem hluta af vinnuskólanum.
Árið 2020 þrýstu mæðgurnar Eygló Aðalsteinsdóttir og Anna María Þórarinsdóttir frá Fáskrúðfirði á samstarf, en þær störfuðu þá í skólum Fjarðabyggðar, Eygló sem skólastjóri á Fáskrúðsfirði. Úr varð samstarf við alla grunnskólana í Fjarðabyggð.
„Krakkarnir byrja strax að hausti og prófa hér einhverjar tvær greinar sem þau velja sér sjálf,“ segir Birgir. Hann bætir við að þetta fyrirkomulag hafi gengið vel og notið stuðnings, hvort sem er innan skólans, frá Fjarðabyggð eða menntamálaráðuneytinu.
Krakkarnir afar ánægð
Það sem kannski mest er um vert er að það eru grunnskólakrakkarnir sjálfir sem gefa verkefninu toppeinkunn aftur og aftur að sögn Birgis.
„Það sem er kosturinn fyrir þá krakka sem taka þátt er að þau kynnast verknámi og þau svara öll sérstakri könnun að námi loknu hvert ár. Þau nefna langflest að kostirnir eru að kynnast verklegum greinum sem þau geta ekki kynnst á annan hátt, að kynnast Verkmenntaskólanum sjálfum og því lífi sem þar er innandyra og síðast en ekki síst lýsa þau mikilli ánægju með að hitta og kynnast öllum þessum fjölda krakka úr hverjum einasta skóla sveitarfélagsins.
Krakkarnir eru því bókstaflega að lýsa öllu því sem okkur langaði að ná fram þegar verkefnið komst á koppinn. Það hefur verið mjög gaman að sjá þau lýsa þessu í könnunum, sem að okkar mati segir að þetta er að heppnast eins og best varð á kosið.“
Samkvæmt tölum fer ekkert á milli mála að verkefnið hefur fjölgað þeim nemendum í Verkmenntaskólanum umfram það sem annars hefði verið. Birgir segir skólann halda tölur yfir slíkt og að það sé óumdeilt.
Halla Tómasdóttir, forseti, Eydís Ásbjörnsdóttir, þáverandi skólameistari og Birgir við afhendingu íslensku menntaverðlaunanna. Mynd: VA
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.