Hæglætisdagar framundan á Djúpavogi
Ellefta Cittaslow-ár Djúpavogs hefst formlega á morgun og stendur í þrjá daga fram á síðdegi á sunnudag. Sem fyrr er áherslan þessa daga að taka lífinu með ró og njóta augnabliksins.
Djúpavogur er enn eina íslenska bæjarfélagið sem er aðili að Cittaslow-samtökunum en yfir 300 bæir um víða veröld eru í þeim samtökum. Þeir allir halda sérstaklega upp á hlutina á sama tíma síðustu helgi september hvers árs.
Dagskrá Cittaslow á Djúpavogi verður að mestu hefðbundin enda komin góð hefð á þá hluti sem virka.
Allt hefst á morgun, Hæglætis-föstudag, í Djúpavogsskóla með bæði skipti- og grænmetismarkaði auk annarrar skemmtunar. Áhugasömum gefst svo kostur á að njóta Gong slökunar í sundlaug staðarins síðdegis áður en hægt er að enda daginn í Faktorshúsi þar sem fram fer pöbbkviss með sérstakri áherslu á heimaslóðirnar.
Á laugardeginum verður geislasteinasafnið að Teigarhorni opnað gestum og í kjölfarið ef veðurguðir verða hliðhollir farið í göngur og réttir í Búlandsdal þar sem grillað verður og haft gaman frameftir.
Sunnudagurinn er svo hinn eiginlegi Cittaslow-dagur en þann dag býðst íbúum sem og gestum að fara í göngumenningarferðir þar sem hægt verður að fræðast um nánast hvern krók og kima í bænum. Söfn bæjarins opin þann daginn líka og rúsínan í pylsuendanum er svo opinn markaður í Löngubúð þar sem heimafólk kynnir framleiðslu sína og vörur.
Að taka lífinu með ró og njóta augnabliksins sem og nærumhverfis er ekki öllum gefið en gott fyrsta skref gæti verið að taka þátt í Cittaslow-dögum Djúpavogs. Mynd Eiður Ragnarsson