Halda netnámskeið fyrir konur með ADHD

Tveir sérþjálfaðir ADHD markþjálfar fara í haust af stað með netnámskeið fyrir konur með ADHD. Sambærileg námskeið hafa til þess aðeins verið aðgengileg konum sem búa á eða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

„Við greindumst báðar með ADHD eftir fertugt og fórum báðar í kjölfarið í nám í ADHD markþjálfun í Bandaríkjunum. Þegar við settum saman námskeiðið „ADHD á kvennamáli“ tókum við tillit til þess sem við höfðum viljað vitað og fá stuðning við þegar við fengum greininguna,“ segir Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir sem stendur fyrir námskeiðinu ásamt Sigrúnu Jónsdóttur.

Þær hafa haldið fjögur slík námskeið á höfuðborgarsvæðinu en Kristbjörg segir þær hafa heyrt ávinning af því að konur víðar á landinu hefðu hug á að sækja námskeiðin. Þannig hefði netnámskeiðið orðið til en þær eru opnar fyrir að fylgja því eftir með heimsóknum síðar.

Um er að ræða hópatíma þrjár vikur í röð: 18. og 25. september og 2. október, tvo og hálfan tíma í senn. Þátttakendur fá einnig rafrænt námsefni inniheldur bæði verkefni og fræðslu. „Við leggjum mikið upp úr því að skapa konum öruggt rými þar sem konur geta fengið stuðning og styrk frá öðrum konum sem mögulega eru að ganga í gegnum það sama eða sambærilegt. Námskeiðið hentar konum á öllum aldri sem annaðhvort eru komnar með greiningu eða grunar að þær séu með ADHD,“ segir Kristbjörg.

Öðlast aukinn skilning á ADHD heilanum


Aðspurð um ástæður þess að vera með sérstakt ADHD námskeið fyrir konur útskýrir hún að ADHD komi misjafnlega milli kynja. „Hér á árum áður var talið að ADHD myndi vaxa af okkur með aldrinum. Því var líka haldið fram að fleiri strákar væru með ADHD en stelpur. Þá var kannski verið að greina þrjá stráka á móti einni stelpu. Enn þann dag í dag er mikill skortur á rannsóknum á konum með ADHD en þær fáu rannsóknir sem gerðar hafa verið sýna að kynin upplifa ADHD einkennin oft mjög ólíkt.

Sem dæmi upplifum við konur mjög sterkt tilfinningalega þætti. Rannsóknir benda til þess að konur með ADHD eiga erfiðara með að vera í samböndum en karlar með ADHD, sérstaklega ef þær fá ekki greiningu. Ef vinnsluminnið er áskorun þá eru þær líklegri til að misskilja maka sinn og aðstæður og lesa vitlaust í þær.

Annað sem greinir kynin að eru hormónarnir. Hormón kvenna sveiflast til dæmis í takt við tíðahringinn og svo er hlutfall þeirra mjög breytilegt út ævina. Hormónabreytingar hafa bein áhrif á framleiðslu dópamíns og líftíma dópamíns, sem heilaboðefni sem gerir okkur kleift að ná einbeitingu, taka ákvarðanir og koma okkur að verki, svo einhver dæmi séu tekin.

Á námskeiðinu öðlast þátttakendur aukinn skilning á starfsemi ADHD heilans og hvernig hann hefur áhrif á það sem við gerum, hugsum og segjum. Við skoðum við þætti eins og líðan, möskun, styrkleika og algengar áskoranir sem fylgja því að hafa ADHD. Við leggjum mikla áherslu á auka sjálfsþekkingu og sátt og uppbyggingu jákvæðrar sjálfsmyndar. Megin hugmyndafræðin er sú að í staðinn fyrir að konan þurfi að breyta sér, laga sig eða aðlaga sig umhverfinu þá megi hún vera eins og hún er. Hún sé flott nákvæmlega eins og hún er.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.