
Halda styrktarbingó fyrir Völu Bjarnadóttur í Valaskjálf
Góðgerðarsamtökin Ladies Circle 10 á Egilsstöðum munu annað kvöld blása í góðgerðarbingó til styrktar Völu Bjarnadóttur sem glímt hefur um hríð við ólæknandi krabbamein. Áhuginn er svo mikill að færa þurfti viðburðinn úr Egilsstaðaskóla í Valaskjálf.
Völu þekkja margir Austfirðingar en hún hefur háð dýrkeypta baráttu við krabbamein um tíma. Það er einmitt einn megintilgangur Ladies Circle samtakanna á heimsvísu að styðja við og styrkja einstaklinga sem eiga í erfiðleikum til að mynda vegna hinna ýmsu sjúkdóma í ætt við það sem kvenfélög almennt hafa gert alla tíð.
Sjálf fæddist Vala árið 1980 og er því einungis 44 ára gömul en hún er í sambúð með Arnóri Steinari Einarssyni og saman eiga þau drengina Ólaf Þór og Bjarna Þór. Hún greindist með mein fyrir tæpum tveimur árum og þrátt fyrir aðgerð og lyfjagjafir varð ljóst í ágúst í fyrra að meinið væri ólæknandi. Öll meðferð síðan hefur miðast að því að halda meininu niðri eins lengi og kostur er.
Að sögn Ástu Birnu Jónasdóttur, sem skipuleggur bingóið ásamt fleirum úr Ladies Circle 10 á Egilsstöðum, hefur ekkert farið á milli mála að eftirvænting er eftir þessum viðburði.
„Það stóð upphaflega til að halda þetta í Egilsstaðaskóla en svo urðum við fljótt varar við svo mikinn áhuga að það pláss dygði varla til. Við ákváðum því að prófa að fá að vera inni í Valaskjálf. Því erindi var vel tekið og sjálf yrði ég hissa ef við fyllum ekki þann sal miðað við áhugann sem við merkjum. Ekki aðeins er safnað fyrir Völu, heldur eru vinningarnir margir og góðir og við verðum með sjoppu á staðnum með samlokur, drykki og slíkt. Alla vinninga höfum við fengið frá fyrirtækjum austanlands og margir hafa sýnt okkur mikinn stuðning í þessu verkefni. Hver einasta króna fer svo til Völu og fjölskyldu hennar.“
Bingóið hefst klukkan 18 annað kvöld en Ásta Birna vill koma á framfæri að ekki verður hægt að greiða með kortum heldur einungis með peningum eða millifærslu.
Ladies Circle hópurinn gerði sér glaðan dag saman fyrir rúmu ári þegar félagsskapurinn fagnaði 15 ára afmæli hérlendis. Mynd Aðsend