Halda uppskeruhátíð Þinghánna til að börnin kynnist betur
Eftir tæpan mánuð fer fram fyrsta sinni sérstök uppskeruhátíð sem að standa þrjár konur úr Hjaltastaða- og Eiðaþinghá sem vilja fyrir alla muni þjappa öllum íbúum saman og ekki síst gefa börnum á svæðinu færi á að kynnast miklu betur.
Um verður að ræða sérstakan markaðsdag laugardaginn 24. ágúst í nýjum hátíðarsal í Miðgarði á Eiðum þar sem bændur og búalið selja afurðir sínar og handverk. Þar einnig tilkynnt um úrslit í sérstakri póstkassakeppni, ljósmyndakeppni og sultukeppni áður en haldið verður í Hjaltalund þar sem kvöldvaka verður utandyra. Lýkur svo herlegheitunum sunnudagsmorguninn með fjölskyldumessu í Hjaltastaðakirkju.
Aðspurð um þetta framtak segir Edda Ósk Gísladóttir að tími sé til kominn að blása í veislu fyrir íbúa í Hjaltastaða- og Eiðaþinghá enda töluvert af nýju fólki á svæðinu.
„Þetta kemur dálítið til af því að í apríl stofnuðum við sérstakt foreldrafélag hér í Þinghánum. Félagið heitir Sámur og við stofnuðum það því hér í þinghánum erum við öll meira og minna í sama pakkanum. Öll erum við með börnin okkar hér í skólabílnum að keyra til og frá virka daga en þrátt fyrir að þau séu að eyða svona miklum tíma í skólabílnum þá þekkjast börnin afskaplega lítið. Hér áður fyrr var auðvitað alltaf samkennsla á Eiðum þar sem allir voru saman. Nú eru þau í sitthvorum skólanum á mismunandi stigum og þekkjast ekkert þannig. Þetta fannst okkur ekki nógu gott og ákváðum að reyna að gera eitthvað til að bæta þarna úr, búa til eitthvað skemmtilegt og þjappa þannig íbúum hér saman.“
Edda segir að meðal margra yngri íbúanna sé Eiðaþinghá og Hjaltastaðaþinghá ein og sama sveitin og það sé uppleggið með uppskeruhátíðinni í næsta mánuði. Foreldrafélagið hafi þegar staðið fyrir tveimur uppákomum sem vel tókust og nú skal gera enn betur með alvöru sveitahátíð.
Þetta á að vera eins „sveitó“ og gamaldags og hægt er en þó með áherslu á börnin sérstaklega. Við fengum með okkur kvenfélögin okkar hér til að vera með súpukvöld og margir aðrir aðilar sem eru hér að gera spennandi hluti sýndu áhuga að vera með þannig að það er gott útlit fyrir að þetta verði mjög skemmtilega hátíð þarna í ágúst.“
Kvöldvaka uppskeruhátíðar Þinghánna verður haldin utandyra við félagsheimilið Hjaltalund og þangað allir velkomnir. Mynd Múlaþing