Heimir næsti þjálfari Fjarðabyggðar?

kff_logo.jpgHeimir Þorsteinsson er einn af þeim sem hefur verið nefndur sem næsti þjálfari Fjarðabyggðarliðsins í knattspyrnu. Heimir stýrði liðinu í lok tímabilsins með ágætis árangri, en undir hans stjórn tókst liðinu að bæta varnarleik sinn sem farið hafði versnandi frá því Þorvaldur Örlygsson sagði skilið við liðið síðasta haust. Heimir segir rangt að búið sé að ráða hann sem þjálfara liðsins. “Þetta er ekki rétt. Það hefur komið til umræðu en það er ekkert meira en það. Ég held að menn séu enn að kyngja síðasta leiknum og meira veit ég ekki.” segir Heimir.

Hann segist vera að skoða sín mál. “Ég viðurkenni að mér finnst gaman að þjálfa þetta lið. Hitt er svo annað mál að samkvæmt kröfum KSÍ um þjálfara í 1. deild þá hef ég ekki menntun til að gegna þjálfarastarfi hjá Fjarðabyggð. Sérstakt UEFA próf þarf til að vera þjálfari 1. deildar liðs. Ég er langt frá því að hafa UEFA prófið.” segir Heimir.

Vitað er til þess að allmargir þjálfarar í úrvalsdeild og 1. deild hafa fengið undanþágu frá KSÍ til að þjálfa án þess að hafa UEFA gráðuna. Hversu lengi KSÍ mun veita undanþágur vegna þessa er ekki vitað. Hins vegar er ljóst að heimamaðurinn Heimir Þorsteinsson er einn af þeim sem kemur sterklega til greina sem næsti þjálfari liðsins. Vitað er af áhuga þungavigtarmanna í “knattspyrnuheimi” austfjarða á að ráða heimamann í þjálfarastarfið frekar en að ráða “pjakka” úr bænum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.