Helgin: Fellasúpa og fleira á Ormsteiti

Héraðshátíðin Ormsteiti er mest áberandi í viðburðahaldi helgarinnar á Austurlandi. Í kvöld verður meðal annars boðið upp á súpu út um allan Fellabæ.

Fjögur heimili opna dyr sínar í kvöld fyrir gestum og bjóða upp á súpu. Fjörið byrjar upp úr klukkan sex í kvöld þegar stuðstrætó með lúðrasveit um borð, leggur af stað frá Tehúsinu á Egilsstöðum. Hann heldur uppi áætlunarferðum til klukkan níu yfir í Vök með viðkomu á súpustöðunum.

„Ég veit ekki hvaða súpur verður boðið upp á, að því leyti er þetta óvissuferð. En það er góður Fellamaður undir stýri sem veit hvert hann á að fara.

Þetta eru fjórir staðir, gamlir og nýir, þvers og kruss um Fellabæ, eða frá Hvammi uppi í Tanga, sem taka þátt,“ segir Halldór Warén, stjórnandi Ormsteitis.

Af öðrum viðburðum Ormsteitis má nefna sölumarkað í Blómabæ seinni partinn í dag og svo laugardag og sunnudag. Smáframleiðendur og fleiri eru þar með vörur sínar.

Lítið tívolí frá fyrirtækinu Kastala er um helgina í nágrenni Tehússins. Það er nýlunda á Ormsteiti. „Þau segja mér að veðrið hér sé það besta sem þau hafi fengið í sumar,“ segir Halldór.

BMX Brós koma við á morgun en þeir heimsækja fleiri staði, sem sem Neskaupstað og Eskifjörð. Tónleikar verða með tríói Jónasar Sig á Tehúsinu annað kvöld. Lokaviðburður Ormsteitis verður síðan óskalagakvöld og samsöngs í Egilsstaðakirkju klukkan 20:00 á sunnudagskvöld.

Kirkjugestir fá við komuna afhentan lista með 50 sálmum og þekktum lögum úr ýmsum áttum sem gestir velja svo úr. Sandór Kerekes leiðir tónlistina en prestur stundina og sönginn. „Við höfum oftast endað Ormsteiti á góðri messu sem hefur verið útfærð á ýmsan hátt og að þessu sinni verður söngstund,“ segir Halldór.

Á morgun frá 11-15 er líka uppskerudagur og grænmetismarkaður í Vallanesi í tilefni lífræna dagsins. Sá viðburður teygir sig líka undir hatt Ormsteitis. „Ormsteiti er uppskeruhátíð alls Fljótsdalshéraðs. Hátíðin snýst um að safna saman þeim viðburðum sem eru á Héraði þessa daga eða hvetja til að þeir verði haldnir,“ útskýrir Halldór.

Á Seyðisfirði verður á laugardag klukkan 15:00 fjölskylduleiðsögn um sýninguna Sjávarbláma. Leiðsögnin er hluti af menningarhátíð barna- og ungmenna á Austurlandi. Sýningin stendur til föstudagsins 27. september.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.