HELGIN: Fjöldi viðburða fyrir utan kosningarnar

Þurfi Austfirðingar að finna sér eitthvað til dundurs fyrir eða eftir að búið verður að greiða atkvæði á morgun er fjöldi viðburða skipulagður næstu þrjá dagana í flestum byggðarlögum.

Eins og sakir standa er gul veðurviðvörun Veðurstofu Íslands í gildi fyrir allt Austurland. Talið er víst að færð muni eitthvað spillast þegar líða fer á kvöldið og fram á morgundag og vegalokanir sagðar líklegar.

Eðli máls samkvæmt gæti því veðurfarið haft áhrif á fleiri viðburði en kosningarnar og ágætt að hafa það hugfast áður en lagt er í hann.

Í Fjarðabyggð stendur til að tendra jólatré í öllum byggðakjörnum nema einum á sunnudaginn kemur. Það fer fram á sama tíma klukkan 16 nema á Reyðarfirði þar sem kveikt verður klukkan 17. Breiðdælingar munu þurfa að bíða fram á miðvikudag en jólatré bæjarins sett í samband 17.30 þann dag.

Breiðdælskir unglingar geta þó tekið forskot á jólasæluna því á Breiðdalsvík verður haldin sérstök jólasmiðja næstu þrjár dagana. Þar hugmyndin að koma saman og búa til jólaheim með einhverju móti. Smiðja þessi fer fram í Gamla kaupfélaginu sem nú er Jarðfræðisetrið og gæta skal þess að vera vel klædd. Smiðjan hefst kl. 13 og stendur til 16 í dag og um helgina.

Í samkomuhúsinu Herðubreið á Seyðisfirði fer fram jólasýning fjölmargra listamanna af svæðinu um helgina og vitaskuld hægt að kaupa verk á sýningunni. Hún opin alla helgina milli 15 og 18.

Á Finnsstöðum í Eiðaþinghá verður þráðurinn frá síðasta ári tekinn upp að nýju og aðventunni fagnað sérstaklega alla laugardaga fram að jólum. Að þessu sinni hefur Leikfélag Fljótsdalshéraðs bæst í hópinn og bjóða skal gestum upp á alvöru jóla- og ævintýrastemmningu frá klukkan 15 til 17 á morgun. Auðvitað kakó og sykurpúðar eins og fólk getur í sig sett og teymt verður undir þá ungu knapa sem áhuga hafa. Frítt inn fyrir þá allra yngstu undir tveggja ára aldri en tólf ára og eldri greiða 2.600 krónur.

Kammerkór Egilsstaðakirkju heldur aðventutónleika sína, Lítið ljós - lítið hljóð, annað kvöld í kirkjunni klukkan 20 og sem fyrr heldur Sándor Kerekes um stjórnartauma. Kórinn mun flytja aðventu- og jólalög í anda Gunnars Gunnarssonar og sérstakur gestur er gítarleikarinn Valbjörn Snær Lilliendahl. Aðgangseyrir 2.500 krónur.

Aðventuhátíð Eiða- og Hjaltastaðasókna fer fram á sunnudaginn kemur klukkan 16 í Hjaltastaðakirkju en þar mun séra Sigríður Rún Tryggvadóttir leiða stundina með fermingarbörnum. Hljóðfæraleikur, barna- og unglingakór Hjaltastaðarkirkju og söngfuglar undir stjórn Sigríðar Laufeyjar. Heitt súkkulaði og smákökur í kirkjunni í lok stundarinnar.

Hin árlega Grýlugleði verður haldin á sunnudaginn kemur að Skriðuklaustri í Fljótsdal klukkan 14 en Klausturkaffi ætlar að hefja leikinn fyrr með fjölskylduvænu jólahlaðborði í hádeginu og kökuhlaðborð þegar Grýla og hennar hyski hafa lokið sér af með söng, sögum og prakkarastrikum. Þá taka Svavar og Gaulálfarnir lagið. Frír aðgangur.

Ljós verða tendruð á miðbæjartorgi Vopnfirðinga klukkan 16.30 í dag og eftir því sem næst verður komist er von á jólasveinum í og með. Í framhaldinu verður farið hið árvissa aðventurölt þar sem fyrirtæki bæjarins bjóða í heimsókn. Á morgun laugardag klukkan 18.30 býður fjölskyldan að Síreksstöðum í drekkhlaðið jólahlaðborð í Miklagarði þar sem skemmtiatriði verða einnig í boði auk notalegrar stemmningar. Aðventuhátíð fer svo fram í Vopnafjarðarkirkju klukkan 17 á sunnudaginn.

Kosningarvökur verða efalítið haldnar hér og þar í fjórðungnum ef veður leyfir en fyrir þá hlutlausu gæti Tehúsið Egilsstöðum verið góður kostur. Þar verður kosningarvaka frá klukkan 21 og vel framyfir miðnætti annað kvöld. Á Djúpavogi verður vart síðri stemmning á kosningavöku Faktor brugghúss og þar trúbador að skemmta svona í og með. Þar verður opið eins lengi og stemmning verður í húsinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.