Helgin: Fjórir austfirskir ökumenn í keppni við Egilsstaði á morgun

Fjórir austfirskir ökumenn eru meðal þeirra sem taka þátt í þriðju umferð Íslandsmótsins í torfæruakstri sem fram fer í Mýnesgrúsum á morgun. Bílarnir verða til sýnis á Egilsstöðum í dag. Tónlistarfólk er á ferð um Austfirði og í Fjarðabyggð heldur listahátíðin Innsævi áfram.

Alls eru 24 ökumenn skráðir til leiks á morgun, 20 í flokki sérútbúinna bíla og fjórir í flokki sérútbúinna bíla. Þar af eru fjórir Austfirðingar, Pétur Viðarsson, Guðlaugur Sindri Helgason og Bjarnþór Elíasson í sérútbúna flokknum en Brynjar Jökull Elíasson í flokki götubíla.

Þeim hefur vegnað ágætlega, Guðlaugur Sindri og Bjarnþór eru jafnir í 4. – 5. sæti Íslandsmótsins meðan Brynjar er efstur eftir að hafa unnið fyrstu tvær umferðirnar. „Brynjar Jökull er á miklu skriði og hlýtur a stefna á heimasigur. Bjarnþór vann síðasta mót sem var bikarmót þannig við treystum á að þeir haldið uppi heiðri heimamanna. Pétur slasaðist á baki í síðustu keppni á Hellu en er að ná sér og getur ekki sleppt því að keppa á heimavelli,“ segir Ástráður Ási Magnússon, úr Akstursíþróttafélaginu Start sem heldur keppnina.

Keppnin hefst klukkan 11:00 í fyrramálið með kynningu á bílum og keppendum. Síðan verða keyrðar sex torfærubrautir, en ekki veðrur tímaþraut þar sem keyrt er yfir vatn eins og oft áður í keppninni við Egilsstaði.

„Það eru margir mjög góðir ökumenn í keppninni í ár og við búumst við miklum tilþrifum. Veðurspáin er að lagast, við getum sagt það sé búið að rykbinda svæðið,“ segir Ástráður Ási.

Frá klukkan 13 í dag verður hægt að sjá bílana við Landsbankann á Egilsstöðum. „Bílarnir eru að tínast inn á svæðið. Þeim verður lagt við bankann þannig að kjörið færi gefst á að sjá þá eins flottir og þeir verða, áður en þeir skítna og beyglast í keppninni.“

Tónlist


Af öðrum viðburðum helgarinnar á Austurlandi þá er tónlistin áberandi. Hljómsveitin Völusteinar spilaði í Neskaupstað í gær og verður á Tehúsinu á Egilsstöðum í kvöld klukkan 20:30. Sveitina skipa þrír Norðfirðingar, Daníel Þorsteinsson, Sigurður Sveinn Þorbergsson og Guðjón Steinar Þorláksson auk söngkonunnar Valgerðar Guðnadóttur. Þau flytja þekkt dægurlög, íslensk sem erlend, í bland við tangó og fleira.

Trúbadorinn Stefnir Stefánsson verður á Aski á Egilsstöðum frá 22:30 í kvöld og í Vök Baths frá 21:00 á morgun.

Mugison lýkur tónleikaferð sinni um kirkjur Austurlands um helgina. Hann spilar á Seyðisfirði í kvöld, Egilsstöðum á morgun og Borgarfirði á sunnudag.

Í sal Frystihússins á Breiðdalsvík verður slegið upp sveitaballi annað kvöld frá klukkan 22:00. Stuðhljómsveitin Ástarpungarnir spilar þar fyrir dansi fram á nótt.

Innsævi


Menningarhátíðin Innsævi í Fjarðabyggð heldur áfram. Dagbjörg Elva Sigurðardóttir opnaði ljósmyndasýninguna „Milli fjalla“ í Þórsmörk í Neskaupstað í gær. Þar eru verk og textar úr samnefndri bók sem kom út árið 2022. Efnið er meðal annars innblásið af dvöl hennar í gegnum árin á heimili tengdaforeldra hennar að Skorrastað.

Húladúllan flytur frumsamið ævintýri „Ljósagull“ í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði klukkan 11 á sunnudagsmorgunn. Tindrandi ljós ljá ævintýrinu lífi og hægt verður að skoða ljósagullin nánar í lok sýningar.

Sama dag klukkan 15:00 lesa norðfirsku skáldin Jón Knútur Ásmundsson og Anna Karen Marinósdóttur upp úr ljóðabókum sem þau gáfu út árið 2022. Þetta voru fyrstu ljóðabækur beggja þótt skáldin séu á ólíkum aldri. Þau lesa einnig upp nýtt efni.

Minjaskráning og fjallganga


Á Skriðuklaustri verður klukkan tíu í fyrramálið haldið örnámskeið í notkun snjallsíma við skráningu menningarminja. Kennt verður á nýtt smáforrit sem er í þróun og veitt góð ráð um hvernig eigi að taka myndir af minjum og fá hnit, bæði með símum og flygildum.

Ferðafélags Djúpavogsbúa stendur fyrir kvöldgöngu á Búlandstind á sunnudag klukkan 21:00. Hafliði Sævarsson leiðir ferðina á tindinn í 1069 metra hæð.

Þá lýkur gönguvikunni Á fætur í Fjarðabyggð um helgina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.