Helgin: Ræða geðrækt í kjölfar náttúruhamfara á stóru málþingi

Málþing um geðrækt í framhaldi af skriðuföllunum á Seyðisfirði verður haldið í Herðubreið á morgun. Tvær efnilegar austfirskar pönksveitir halda sameiginlega tónleika í kvöld.

Geðræktarmálþingið „Upp, upp mín sál“ hefst í Herðubreið klukkan 10:00 í fyrramálið. Að því standa Múlaþing og Samráðshópur um áfallahjálp á Austurlandi með stuðningi frá Rótarýklúbbi Héraðsbúa.

Meðal þeirra sem flytja erindi á málþinginu eru Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu um stöðu flóðavarna og Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, fagstjóri endurreisnar og fræðslu hjá almannavörnum um samkennd og samheldni í kjölfar áfalla. Bæði voru áberandi í viðbrögðum fyrst eftir skriðuföllin 2020.

Á Seyðisfirði í dag klukkan 16:00 opnar ný sýning á Vesturvegg Skaftfells bistró. Hanna Christel Sigurkarlsdóttir sýnir þar lágmyndir sem hún hefur unnið með að undanförnu. H´n notar í verkum sínum endurtekið textíl til að kalla fram liti og áferð.

Austfirsku unghljómsveitirnar Chögma og Sárasótt halda sameiginlega tónleika klukkan 21:00 í Valaskjálf á Egilsstöðum. Chögma náði í vor þriðja sætinu í Músíktilraunum meðan Sárasótt á uppruna sinn á Stöðvarfirði og hefur komið fram á nokkrum tónleikum, einkum á Austurlandi, undanfarin ár.

Borgfirðingurinn Aldís Fjóla heldur sína fyrstu tónleika á Egilsstöðum þegar hún kemur fram í Tehúsinu annað kvöld klukkan 20:30. Hún kemur fram með hljómsveit og tekur bæði frumsamin lög sem og nokkur uppáhaldslög eftir aðra listamenn. Aldís Fjóla gaf fyrstu sólóplötu sína út árið 2020 og þá næstu í fyrra. Lagið Quiet the Storm af henni fór í efsta sæti vinsældarlista Rásar 2.

Ljósmyndarinn Stuart Richardson verður með leiðsögn um sýningu sýna Undiröldu í Sláturhúsinu í dag klukkan 15:00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.