Helgin: Sólstöðuhátíð og sýningaropnun í Skaftfelli

Sumarsýning Skaftfells opnar í dag og þar verður miðsumarhátíð. Tónlistarmaðurinn Mugison er á ferð um kirkjur Austurlands og menningarhátíðin Innsævi heldur áfram í Fjarðabyggð.

„Við höfum verið að skoða hvernig haldið er upp á sumarsólstöður meðal fólks af ýmsum þjóðernum sem búsett er á Austurlandi. Við fáum því til okkar fólk úr ýmsum áttum sem kynnir okkur sína siði, þar með talið þær íslensku.

Síðan mun Kamilla Gylfadóttir segja sögur um sumarsólstöður úr ýmsum áttum,“ segir Celia Harrison, forstöðumaður Skaftfells.

Upphaflega stóð til að halda hátíðina í kvöld en vegna vætuspár var henni frestað til morguns. „Við erum bjartsýn á veðrið. Í fyrra var reyndar smá rigning og hún dró ekkert úr hátíðahöldunum.“

Dagskráin á morgun hefst með leiðsögn Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson um sýningu þeirra „Sjávarbláma“ sem opnar þar í dag. Bryndís og Mark hafa rannsakað birtingu hvala í samtímaheimildum, meðal annars frá Vestdalseyri í Seyðisfirði þar sem um tíma var rekin mikil hvalveiðistöð. Þau hafa einnig skoða hvalreka, meðal annars á Austfjörðum. „Þetta er sýning sem á sérstaklega vel við hér á Seyðisfirði,“ segir Celia.

Eftir leiðsögnina verður síðan götumarkaður, matur, götulist og tónlist til klukkan tíu um kvöldið.

Innsævi


Í Fjarðabyggð heldur menningarhátíðin Innsævi áfram með fjölda viðburða. Fyrst er þar að nefna sumarsólstöðutónleika með hljómsveitinni Osme í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði. Hljómsveitin byrjar að spila á hádegi í dag og ætlar að halda út í 12 tíma með hugleiðsluþungarokki sínu. Fleira tónlistarfólk úr Fjarðabyggð tekur þátt í tónleikunum.

Klukkan 17:00 í dag opnar sýning Sögu Unn, „Þýðing 2.0“ í gömlu Netagerðinni í Neskaupstað. Um er að ræða þriðju innsetninguna í seríu með verkum sem unnin eru úr gömlum kennslubókum í tungumálum.

Í dag eru 100 ár frá því Jósafat Hinriksson, sem Sjóminjasafnið í Neskaupstað er kennt við, fæddist. Því verður fagnað í safninu klukkan 15:00 á morgun. Barnabarn hans, Ólöf Þóranna Hannesdóttir, fer þar stuttlega yfir sögu safnsins.

Á sama tíma opnar sýning Marc Alexander í Sólbrekku á Mjóafirði sem kallast „Generalprufan.“ Á henni eru klippimyndir úr íslenskum bókakápum.

Hallveig Rúnarsdóttir, sópransöngkona og Hrönn Þráinsdóttir, píanóleikari, halda tónleika sem kallast „Á Ljúflingshól“ í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði klukkan 16:00 á sunnudag. Þar er farið vítt og breitt yfir íslenska leikhústónlistarsögu.

Tvær sýningar Páls Ivans


Á morgun hefst líka opin vinnustofa Páls Ivans frá Eiðum og Guðlaugar Drafnar Gunnarsdóttur í Bragganum við Stríðsárasafnið á Reyðarfirði. Þau verða með listaverk til sýnis en hafa líka áhuga á að tala við þá gesti sem líta við. Þau taka á móti gestum milli 13-17 alla vikuna.

Í dag klukkan 16:00 opnar Páll Ivan líka nýja sýningu í Glettu, Hafnarhúsinu á Borgarfirði. Yfirskrift hennar er „Nokkur lög“ og vísar til þess að hann var áður tónskáld, sem færði sig svo yfir í myndlistina en er nú aftur að reyna að færa sig yfir í tónsmíðar í gegnum teikningar.

Grín


Grínistinn Ari Eldjárn er líka á Borgarfirði um helgina. Hann verður með uppistandi í Fjarðarborg klukkan 21:00 í kvöld þar sem hann meðal annars prufukeyrir ný atriði.

Annað uppistand verður í Beituskúrnum í Neskaupstað á sunnudagskvöld klukkan 19:00. Það kallast „Innflytjendurnir eru að koma“ og er haldið uppi af tveimur rúmenskum grínistum. Þeir hafa ferðast víða um heim og gera vægðarlaust grín að helstu hitamálum samfélagsins.

Tónleikar


Jazztónleikaröðin „Far Out“ heldur áfram en Tríó Sunnu Gunnlaugs kemur fram í Sláturhúsinu á Egilsstöðum klukkan 20:00 á morgun. Hún spilar á píanó, Þorgrímur Jónsson á kontrabassa og Scott McLemore á trommur en þau hafa verið í fararbroddi íslenskra jazzleikara í rúman áratug og fengið nokkrar tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Á sunnudagskvöld klukkan 20:00 kemur bandaríska píanóleikarinn Andrew Yang fram á tónlistarstund í Egilsstaðakirkju. Andrew hefur starfað hérlendis við kennslu undanfarin fjögur ár.

Tónlistarmaðurinn Mugison er á ferð um Austurland þessa vikuna en hann spilar í sumar í 100 kirkjum. Hann var á Djúpavogi í gær, verður á Stöðvarfirði í kvöld, Fáskrúðsfiðri á laugardag og Reyðarfirði á sunnudag. Hann hvílir sig á mánudag en heldur áfram á Eskifirði á þriðjudag og Norðfirði á miðvikudag og lýkur síðan törninni með tónleikum á Seyðisfirði næsta föstudag, Egilsstöðum á laugardag og Borgarfirði á sunnudag.

Náttúruskoðun


Eins og venjan er um sumarsólstöður þá er skipulögð útivist í boði. Náttúrustofa Austurlands verður með tvær fræðslugöngur með blómaþema. Sú fyrri er farin um Hólmanes á morgun en sú seinni um Fólkvang Neskaupstaðar á sunnudag. Farið er af stað klukkan 11:00 frá bílastæðunum. Í leiðinni verður komið við í nokkrum af sístækkandi lúpínubreiðum fólkvanganna og reynt að hefta útbreiðslu plöntunnar. Þess vegna er mælt með að fólk komi með garðhanska.

Þá stendur Ferðafélag Djúpavogs fyrir sumarsólstöðugöngu upp að Svarthamarsvatni í Álfafirði. Farið verður af stað frá hreppsskrifstofunni að Bakka klukkan 22:00 í leiðsögn Eiðs Ragnarssonar.

Að endingu má minna á Skógardaginn mikla á Hallormsstað sem að þessu sinni teygir sig yfir tvo daga, með lagakeppni í kvöld og aðaldagskrá eftir hádegi á morgun.

Mynd: Skaftfell

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.