Helgin: Tónleikaröð með gítarleikara í forgrunni hefst í Tónspili

Tónleikaröðin Strengir, þar sem gítarleikarar eru í aðalhlutverki, hefst í Tónspili í Neskaupstað um helgina. Ný ljósmyndasýning opnar í Sláturhúsinu á Egilsstöðum og sagnasmiðjan með vefnað í forgrunni verður í Hallormsstaðarskóla.

Það eru söngkonan Soffía Björg og gítarleikarinn Pétur Ben sem hefja tónleikaröðina Strengi, sem hefst í Tónspili, félagsaðstöðu BRJÁN í Neskaupstað um helgina.

„Við verðum með mánaðarlega tónleika í vetur þar sem við verðum með tónleika þar sem gítarinn er burðarás. Þetta verða ekki stórar hljómsveitir heldur annað hvort gítarleikarinn einn eða einhver annar með honum eins og á morgun.

Þetta er samstarfsverkefni BRJÁN og Menningarstofu Fjarðabyggðar sem gengur annars vegar út á að efla tónlistarlífið hér yfir veturinn, hins vegar að koma Tónspili á kortið sem tónleikastað,“ segir Guðmundur Höskuldsson, formaður BRJÁN.

Soffía og Pétur hafa unnið saman í hátt í tíu ár. Þau eru nú að vinna að þriðju plötu Soffíu þar sem þau semja nokkur lög saman og Pétur stjórnar upptökum. Hann kom einnig að fyrri tveimur plötum hennar.

Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00. Í næsta mánuði mun djassgítarleikarinn Mikael Máni spila á Strengjum en í nóvember mætir Anya Shaddock frá Fáskrúðsfirði. Hlé verður gert í desember áður en tónleikaröðin fer aftur af stað á nýju ári.

Í Sláturhúsinu á Egilsstöðum opnar klukkan 16:00 ný sýning ljósmyndarans Stuarts Richardsonar, sem ber heitið Undiralda. Stuart heimsótti Ísland fyrst árið 2005 en hefur búið hér síðan 2007. Hann beinir sjónum sínum að íslensku landslagi og í gengum myndirnar lýsir hann áhyggjum sínum af örum breytingum á náttúrunni undanfarin 20 ár.

Á sunnudag verður vefnaðarstefnumót og sögustund í Hallormsstaðaskóla frá 14-17. Brúðumeistararnir Tess Rivarola frá Seyðisfirði og Ana Caballero leiða stundina sem er hluti af barnamenningarhátíð Austurlands – BRAS. Þær nota meðal annars ull til að spinna köngulóarvefi í skóginum. Þannig verða til innsetningarverk sem endurspegla sögur og hugsanir.

Þá eru í boði um helgina fjöldi viðburða í tengslum við Íþróttaviku Evrópu, svo sem gönguferðir, opnar æfingar, maraþonsund í Neskaupstað og fleira. Nánari upplýsingar eru á heimasíðum Múlaþings, Fjarðabyggðar og Vopnafjarðarhrepps.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.