Höfnuðu beiðni um viðbótargreiðslur
Bæjarráð Fjarðabyggðar hafnaði á fundi sínum í gær beiðni starfsmanna leikskóla sveitarfélagsins um viðbótargreiðslur vegna vinnu í matartímum. Í bókun ráðsins segir að ekki sé rétt að samþykkja greiðslurnar því kjarasamningar renni út 30. nóvember.
Starfsmenn leikskólanna söfnuðu undirskriftum og sendu bæjaryfirvöldum til áskorunar um að málin yrðu skoðuð. Þeir vildu að greidd yrði yfirvinna í stað dagvinnu í hálftíma matarhléi þar sem þeir matast með börnunum.
Þóroddur Helgason, yfirmaður fræðslusviðs Fjarðabyggðar, segir að í dag sé greitt samkvæmt samningum. Starfsmenn stytti vinnudaginn með því að borða með börnunum og fái frían mat. Verði vinnudagurinn lengri en átta tímar sé þessi tími greiddur í yfirvinnu. Hann segir misjafnt hvernig þessum málum sé fyrirkomið hjá öðrum sveitarfélögum.
„Ég kannaði hjá sex sveitarfélögum hvað væri gert og helmingur greiðir einhverjar álagsgreiðslur í leikskólum, en það eru þó skilyrtar greiðslu hjá sumum, til dæmis að ekki sé verið að stytta vinnudaginn.“