Hin dýrslega spenna

Það er eitthvað magnað við tónlist hins skoska Charles Ross, tónskálds á Eiðum. Eins og hann leiti niður á milli hvers einstaks tóns og dragi þaðan upp úr djúpum aldanna tungumál eða tilfinningu sem mannssálin hefur gleymt í tímans rás; hljóð, skynjun, spennu, sem var til áður en tungutak mannsins þróaðist. Hann segist vera á þeim slóðum í tónsköpun sinni nú, en hann hefur samið fjöldan allan af tónverkum.

stelkur_1.jpg

,,Margir segja að nútímatónlist sé eitthvað nýtt, en mér finnst gott að grafa ofan í hið forna,“ segir Charles. ,,Eitthvað gleymt, tengt einhverju eldra en tónlist og tungumáli, kannski einhverju dýrslegu.“ Hann skapar grun um eitthvað, eins og bergmál úr öðrum tíma. Svo vefur hann stundum tónlistina sína í húmor og þykir ómótstæðilegt að etja saman ólíkum stefjum heimstónlistarinnar.

Charles er vel lærður í músík allra landa og tíma og er nú að sækja um að komast í doktorsnám í tónsmíðum við háskóla í Glasgow. ,,Mig langar að rannsaka þar hvernig má yfirfæra hugmynd að tónlist svo hratt og örugglega að það skili sér út í hörgul á nótnablaðið.“  Hann er ekkert á leiðinni frá Íslandi. Segir að austfirska náttúran gefi sér innblástur, sem geti af sér aðra og kannski einlægari tónlist en hámenningaráhrif heimsborganna myndu gera.

stelkur3.jpg

  Hinn ódæli levíafónn  

Nútímatónlistarhópur Charles, Stelkurinn, spilaði á tónlistarhátíðinni Myrkum músíkdögum í febrúar. Áður hefur hlljómsveitin tekið þátt á hátíðinni árin 2001 og 2003. Nú voru flutt fjögur tónverk eftir Charles og verk eftir Matti Saarinen, Steve Reich og Kevin Volans. Tvö verka Charles; Early Sea Painters og Fox voru frumflutt á tónleikum í Egilsstaðakirkju skömmu fyrir flutning verkanna á Myrkum músíkdögum og einnig gítarverk Matti, Apex. Stelkinn skipa auk Charles og Matti, James Neilson Graham, píanó- og melódíkuleikari og Xavier Najera slagverksleikari, en þessir fjórir eru kennarar við Tónlistarskóla Fljótsdalshéraðs. Í hljómsveitinni eru einnig Einar Bragi Bragason sem spilar á allt sem hægt er að blása í og er skólastjóri Tónlistarskólans á Seyðisfirði og Kristín Þóra Haraldsdóttir fiðlu- og lágfiðluleikari frá Reykjavík. Charles sjálfur spilar að heita má á öll hugsanleg hljóðfæri en hefur þó mest haldið sig við strengina.

Verkin sem Stelkurinn flutti eru skemmtilega ólík. Geta verður þó sérstaklega The Leviaphone Awakes, sem Charles samdi í fyrra. Levíafónninn var mekanískt hljóðfæri með úrverki og píanórúllum og gat á sama tíma útsett og spilað marga óskylda búta af tónlist. Á heimssýningunni í París árið 1889 voru 48 mismunandi tónlistarbútar settir í levíafóninn fyrir tónleika. Vélin bilaði og ekkert heyrðist í henni fyrr en allt í einu eftir tvær vikur, þrjá daga og sjö klukkustundir. Charles fabúlerar í verki sínu um það furðulega tónlistarhaf sem út úr vélinni vall þá á ská og skjön, á þann hátt að tónleikagestirnir þurftu að halda í sér hlátrinum til að setja ekki tónleikana í uppnám. Uppklappið var síamíska serenaðan Kham Hom, sem þýðir falleg orð. Þar voru sannarlega fallegir tónar.

stelkur_2.jpg

Myndir/SÁ

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.