Orkumálinn 2024

Hitaveita hækkar gjaldskrá

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur ákveðið að hækka gjaldskrá Hitaveitu Fjarðabyggðar um 20,5%. Ástæðan er rakin til hærra raforkuverðs. Íbúar eru missáttir við hækkunina, sem mun skila 12 milljónum króna í tekjur til Hitaveitunnar.

Í greinargerð umhverfis- og mannvirkjateymis Fjarðabyggðar með tillögu að hækkuninni til bæjarráðs, segir að gjaldskrá Hitaveitu Fjarðabyggðar hafi verið óbreytt frá stofnun hennar árið 2005 og hafi frá upphafi verið markmiðið að Hitaveita Fjarðabyggðar væri ekki dýrari en rafhitun.

,,Frá árinu 2005 hefur taxti rafhitunar hækkað um 23%. Raunhækkun rafmagns til hitaveitunnar er þó 46 % þar sem niðurgreiðsla frá ríkinu hefur verið föst krónutala allt þetta tímabil. Í hjálagðri tillögu að nýrri gjaldskrá fyrir Hitaveitu Fjarðabyggðar er aðeins gert ráð fyrir hluta leiðréttingar vegna hækkunar á raforkukostnaði. Kílóvattstund í rafhitun kostar á bilinu 4,2 til 4,4 kr. en 20% hækkun á gjaldskránni, eins og hér er lagt til, felur í sér að kílóvattstundir hjá Hitaveitunni hækkar úr 2,62 kr. í 3,15 kr. Gert er ráð fyrir að gjaldskrárbreytingin taki gildi við birtingu. Tekjuaukning miðað við heilt ár er áætluð um 12 milljónir kr. Í tengslum við fjárhagsáætlun er unnið að samræmdri gjaldskrá fyrir fjarvarmaveitur

Fjarðabyggðar sem tilheyra Hitaveitu Fjarðabyggðar. Hitaveita Fjarðabyggðar rekur tvær fjarvarmaveitur, eina á Norðfirði og eina á Reyðarfirði. Veitan á Reyðarfirði hefur verið rekin á núlli, þannig að kostnaði af rekstri hennar hefur verið dreift á þær stofnanir sem hún þjónar. Fjarvarmaveitan á Norðfirði hefur aftur á móti verið rekin með halla undanfarin ár. Í fyrra nam tapið 5,3 milljónum kr. og stefnir í svipað tap á þessu ári," segir í greinargerðinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.