Hálslón að fyllast - Jökla fer að renna

Í hlýindunum síðustu vikur hefur verið mikið innrennsli í Hálslón frá Brúarjökli.  Undanfarna viku hefur innrennslið inn í lónið verið um það bil 33 milljón rúmmetrar á sólahring sem jafngildir að meðaltali innrennsli upp á rúma 380 rúmmetra á sekúndu.  Þar af renna svo um 120 rúmmetrar á sekúndu til Fljótsdalsstöðvar til orkuframleiðslu.

.

 

Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun er miðað við innrennslið undanfarna daga og og sé haft til hliðsjónar veðurútlit næstu daga er gert ráð fyrir að Hálslón nái yfirfallshæð sem er í 625 m yfir sjávarmáli á tímabilinu 12.-14. ágúst næstkomandi.  Þá mun vatn byrja að renna um þar til gerða yfirfallsrennu við stífluna á vesturbakkanum og niður í gljúfrið neðan hennar og niður Jökuldal.

Vatnsrennsli í farvegi Jöklu neðan stíflunnar mun síðan aukast nokkuð hratt og gæti miðað við núgildandi veðurútlit orðið á bilinu 200 til 300 rúmmetra á sekúndu.  Í miklum hlýindum gæti rennslið orðið miklu meira.  Samkvæmt núgildandi spá mun vatn renna á yfirfalli fram í fyrstu viku október.

Sigurður Arnalds upplýsingafulltrúi hjá Landsvirkjun segir að ferðamenn sem leið eiga um svæðið séu sem fyrr beðnir um að gæta varúðar á vinnusvæðinu í grennd við stífluna sem og neðan hennar.

Jafnframt segir Sigurður að þessi spá um vatnsrennsli á yfirfalli Hálslóns verði skoðuð nánar þegar nær dregur og íbúar við Jöklu verða þá látnir vita sérstaklega um væntanlegt aukið rennsli í ánni með um sólarhrings fyrirvara með símaskilaboðum frá 112.

halslon_gervitungl.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.