Hreinsunarátakið Vor í Fjarðabyggð í gangi út vikuna

Í gær hófst formlega átakið Vor í Fjarðabyggð þar sem íbúar sveitarfélagsins eru hvattir til að hreinsa garða og nærumhverfi sitt, gróðursetja plöntur og hafa hlutina snyrtilega.

Í þessu skyni mun sveitarfélagið meðal annars bjóða upp á gróðursetningar trjáa, gjaldfrjálsa aðstoð við losun garðaúrgangs og í sérstökum bæklingi sem gefinn hefur verið út má finna ýmis góðar ábendingar um mikilvæg vorverk og hvernig halda skuli görðum og opnum svæðum fallegum og snyrtilegum.

Átakið hófst formlega í gær þegar gróðursettar voru trjáplöntur á tjarnarsvæðinu í Breiðdalsvík og hið sama verður gert á morgun við Ósinn í Fáskrúðsfirði. Þá héldu starfsmenn bæjarskrifstofunnar út með poka í hönd og plokkuðu rusl.

Aðspurð um viðbrögð íbúa við átakinu segir Helga Björk Einarsdóttir, garðyrkjustjóri Fjarðabyggðar, að undirtektirnar hafi verið góðar en megi auðvitað alltaf vera betri. Átakið mun standa alveg fram að helgi.

„Við kláruðum að gróðursetja á Breiðdalsvík í gær og plönturnar komnar í jörð. Óskandi er að íbúar á Fáskrúðsfirði taki þátt í þessu með okkur á morgun þar í bæ. Almennt talað hafa viðbrögðin verið góð en heilt yfir mætti vera meiri stemmning fyrir svo átakinu. Það kann að skýrast af því að þetta hefur verið í dálítilli lægð síðustu árin og þarfnast eflaust meiri kynningar fyrir fólki. Svo er tímasetning kannski ekki sú besta því fólk er jú flest í vinnu og öðrum önnum yfir hádaginn þannig að tíminn til vorverkanna er takmarkaður.“

Helga segir þó að verið sé að reyna að höfða til fleiri og menn læri af reynslunni. Þá er hún þakklát fyrir góðan stuðning ýmissra fyrirtækja í sveitarfélaginu.

„,Það er til dæmis núna svo að við skjótum í smá pylsupartí lokadaginn og reynum að gera okkur aðeins glaðan dag svona aukreitis. Hugsanlega er slíkt liður í að skapa stemmningu sem fólk tengir við í framtíðinni.“

Bæjarstjórinn Jóna Árný Þórðardóttir lét ekki sitt eftir liggja þegar átakið Vor í Fjarðabyggð hófst í gær. Plokkað var töluvert af rusli á Reyðarfirði. Mynd Fjarðabyggð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.