Áhrif kreppunnar á framtíðarsamfélagið
Komið er að annarri hrinu í fyrirlestraröðinni Mannlíf og kreppur sem hefur vakið mikla athygli fyrir nálgun á efni sem tengjast stærsta máli samtímans hér á landi, fjármálakreppunni, og líklegum áhrifum hennar á innviði íslensks samfélags á næstu árum. Á laugardag 14. mars munu fjórar þjóðkunnar konur flytja erindi um snertifleti fortíðar, samtímans og framtíðar við íslenskar bókmenntir, lögfræði og verkfræði. Lokafyrirlesturinn fjallar svo um uppbyggingu og samhæfingu þjónustu fyrir einstaklinga í atvinnuleit en þar hefur Vinnumálastofnun á Norðurlandi eystra þótt til fyrirmyndar á mörgum sviðum.
Fyrirlestrarnir nú á laugardaginn 14. mars eru eftirfarandi:
10.00-10.20 Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar - Endurtekin stef um ofsa, óhóf og ágirnd
10.30-10.50 Björg Thorarensen prófessor - Kreppan, lýðræðið og stjórnarskráin
Kaffihlé
11.10-11.30 Brynhildur Davíðsdóttir dósent - Sjálfbærni og endurreisn
11.40.12.00 Soffía Gísladóttir forstöðumaður Vinnumálastofnunar Norðurlands eysta - Mannrækt á Norðurlandi eystra
Hver fyrirlestur er 18-20 mínútur. Áhorfendum er boðið að spyrja nokkurra spurninga á milli fyrirlestra. Boðið er upp á kaffi í hléi.
Í fyrstu hrinunni 5. janúar spönnuðu fyrirlestrarnir vítt svið: mannlíf í kreppu, kosti okkar í myntmálum, hvaða tækifæri felast í kreppunni, hvatningu á óvissutímum, sveigjanleika íslensks atvinnumarkaðar og staðreyndir um hamingjuna.
Fyrirlestrarnir voru allir hnitmiðaðir og eru aðgengilegir á vef Háskóla Íslands en þeir voru teknir upp í fullum útsendingargæðum. Mörg þúsund manns hafa farið inn á vefsíðu verkefnisins frá því hún var sett upp 22. janúar og viðbrögð nemenda, starfsfólks HÍ og almennings á bloggsíðum og víðar hafa verið afar jákvæð. Kynntu þér endilega fyrirlestrana frá því í janúar með því að smella hér http://www.hi.is/is/mannlif_og_kreppur/
Þeir sem hafa hug á að mæta og taka þátt á í Hringstofu Háskólatorgs þann 14. mars eru beðnir um að senda tölvupóst til staðfestingar á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it., eða hafa samband við Kristínu Ásu Einarsdóttur á Markaðs- og samskiptasviði HÍ, s. 525 4083.