Í spor Sigurðar Gunnarssonar: Maður hugar og handa
Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, sendi í sumar frá sér bók um langafa sinn, Sigurð Gunnarsson, sem setti mark sitt á mannlíf á Austurlandi á 19. öld. Í bókinni eru meðal annars áður óbirtar heimildir sem varpa ljósi á lífið á Austurlandi og Íslandi um miðja öldina.Verkið er mikið um sig, um 500 síður í tveimur bindum enda er af nógu að taka um mann sem er titlaður „prestur og prófastur, landkönnuður, náttúrufræðingur, kennari, læknir, rithöfundur og alþingismaður“ auk þess að vera bóndi, en kirkjustaðirnir á bæði Desjarmýri og Hallormsstað, sem Sigurður sat, voru stórbýli.
Einn af hvötunum að bókarskrifunum er fjöldi heimilda sem varðveittur var eftir Sigurð, meðal annars fundargerðir árlegra héraðsfunda sem haldnir voru frá 1850-59 og kenndir voru við fundarstaðinn, Þinghöfða í Hróarstungu. Þetta munu vera einu eintökin af fundargerðunum og eru þau birt í heild sinni í bókinni.
Þannig verður bókin ekki bara Sigurðar, heldur líka Austurlands og Íslands alls því bókin gerist á tímum sjálfstæðisbaráttunnar þar sem verið er að endurreisa Alþingi. Sigurður vingaðist við Jón Sigurðsson og áttu þeir í miklum bréfaskriftum, sem að hluta til eru birt í bókinni.
Læknir af nauðsyn
Þegar Hjörleifur er spurður hvað standi upp úr að hans mati í bókinni segir hann að það sé hversu margbrotinn maður Sigurður hafi verið. „Ekki bara á einu sviði. Hann er ekki síður maður hugar en handa,“ segir Hjörleifur og bendir á að Sigurður hafi teiknað og smíðað tvær kirkjur.
Ólíkt mörgum þeirra sem hann sat með á Alþingi fór Sigurður ekki utan til náms, heldur lauk prestsnámi frá Bessastöðum, þar sem nú er forsetasetur Íslands. Hann hafi hins vegar verið ótrúlega fróðleiksfús eins og lækniskunnátta hans hafi sýnt.
„Hann setur sig inn í læknisfræði í gegnum eina lækninn á Austurlandi, Gísla Hjálmarsson á Höfða en líka tengdaföður sinn, Guttorm Pálsson prófast í Vallanesi, sem stundaði lækningar sem prestur á erfiðum tímum á Hólmum í Reyðarfirði og síðar Vallanesi. Neyðin og nauðsynin rekur hann til þessa.“
Samskipti sem sýna samtímann
Guttormur leiddi Þinghöfðafundina. Sigurður tók svo við keflinu og stýrði málfundum sem haldnir voru á Þórsnesi við Egilsstaði frá 1882-1888. Enn má sjá rústir býlisins sem þar var. „Þeir snérust mikið um verslun. Sigurður komst í kynni við Tryggva Gunnarsson, forstjóra Gránufélagins. Þótt félagið hafi byrjað á Norðurlandi þá færðist það til Austurlands og var með miðstöð á Vestdalseyri í Seyðisfirði.
Þannig það er búið að kafa í ritaðar heimildir og bréf sem sum hafa ekki birst áður. Þetta varpar svo allt ljósi á kunningjahóp Sigurðar og samskipti hans.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.