Jóna Guðlaug kjörin íþróttamaður Þróttar

Jóna  Guðlaug Vigfúsdóttir  var valin íþróttamaður Þróttar fyrir árið 2008 í vikunni. Hún átti frábært tímabili 2007-2008 með blakdeild Þróttar Neskaupstað en þær unnu þrefalt; urðu deildar-, bikar- og Íslandsmeistarar kvenna.

vefur_rttur.jpg

Jóna Guðlaug var einn af máttarstólpum liðsins og átti stóran þátt í þessum titlum Þróttar,  á lokahófi Blaksambands Íslands sem haldið var í mars sl. Var hún valin besti leikmaður  fyrstu deildar kvenna , hún var einnig stigadrottningin í deildinni með flest heildarstig skoruð, var efst í sóknarskori og stigum skoruðum úr uppgjöf.   Á árinu lék hún sinn 28. Landsleik með A landsliðinu þegar það tók þátt í Evrópuleikum smáþjóða en hún var einnig að spila sitt síðasta ár í U-19 ára unglingalandsliði íslands en það hafnaði í þriðja sæti á Norðurlandamótinu sem haldið var á Akureyri í haust. Þar var hún valin besti leikmaður mótsins.  Í desember var hún svo valin blakkona ársins af stjórn Blaksambands Íslands.Frá haustinu hefur Jóna Guðlaug spilað með Tromsö Volley í Noregi.

 

Aðrir sem voru tilnefndir voru:


Bjartur Þór Jóhannsson en hann var tilnefndur frá Skíðadeild Þróttar. Bjartur stóð sig vel á síðasta ári tók þátt í öllum þeim mótum sem fóru fram á Austurlandi og stóð sig vel, hafnaði yfirleitt í 1. eða öðru sæti. Bjartur Þór er  13 ára gamall og var byrjaður að æfa skíði stuttu eftir að hann fór að ganga, hóf snemma að taka þátt í æfingum og keppni, er mjög áhugasamur iðkandi og hefur fengið viðurkenningar fyrir ástundun.


Fyrir sunddeild Þróttar var Katrín Lilja Sigurjónsdóttir  tilnefnd. Katrín  æfði sund frá 7 ára til 9 ára aldurs,  byrjaði aftur s.l. haust og er skemmst frá því að segja að þessi 12 ára stelpa kom sá og sigraði á Austurlandsmóti sem haldið var í sundlauginni í Neskaupstað í nóvember.  Þar keppti hún í 50 metra, 100 metra og 200 metra bringusundi og náði gulli í öllum greinum sem og þriðja sæti í 4x50 metra boðsundi með A - sveit Þróttar undir 12 ára. Bindur sunddeildin miklar vonir við Katrínu Lilju í framtíðinni.


Fyrir  hönd  Knattspyrnunnar  var það Sævar Örn Harðarson, 17 ára varnarmaður sem spilar með KFF sem var tilnefndur. Sævar Örn hefur alla sína tíð æft og spilað með Þrótti og Fjarðabyggð, hann hefur tekið þátt í öllum Íslandsmótum  upp alla yngri flokkana auk þess að taka þátt í fjölmörgum opnum mótum. Hann hefur aldrei misst úr Shell-, Króks-  eða Essómót þegar þau voru í boði.
Sævar hefur tvívegis fengið boð á landsliðsæfingar hjá U-17 ára landsliðinu, núna síðast vorið 2008 og í nóvember síðastliðnum var honum  að taka þátt í æfingu hjá U-19 ára landsliðinu. Sævar var í árið 2008  með leikmannasamning hjá KFF og var hann endurnýjaður nú fyrir árið 2009. 

 

Stjórn Þróttar ákvað að þessu sinni að heiðra félaga sem náði frábærum árangri  í  blaki í Danmörku keppnistímabilið 2007-2008. Matthías Haraldsson spilaði stöðu frelsingja hjá Marienlyst í tvö keppnistímabil. Liðið leiddi deildina allan veturinn og vann deildarmeistaratitilinn, liðið vann Danmerkurmeistara í þriðja sinn í sögu félagsins. Þannig náði Marienlyst að taka titlana á síðasta keppnistímabili en tímabilið áður duttu þeir út í undanúrslitum bæði í deildinni og bikarkeppni. Þegar lið ársins var valið í Danmörku var Matthías valinn frelsingi ársins og var hann vel að þeim titli kominn.

ÁL

  

Ljósmynd/ÁL:

 

Bjartur Þór Jóhannsson, Katrín Lilja Sigurjónsdóttir, Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir formaður blakdeildar Þróttar og staðgengill Jónu Guðlaugar Vigfúsdóttur, Matthías Haraldsson og Sævar Örn Harðarsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.