Jötungíma skýtur upp kollinum í Fellum

Myndarleg jötungíma, sem er talin vera stærsta sveppategund heims, hefur skotið upp kollinum við aflögð útihús við Sigurðargerði í Fellum. Jötungíman hefur komið þar fram af og til síðustu 15 ár.

„Sveppurinn kemur ekki fram á hverju ári. Það eru 2-3 ár síðan hún sást hér síðast,“ segir Brynjólfur Rúnar Gunnarsson, bóndi á Hafrafelli.

Í Sveppabókinni eftir Helga Hallgrímsson, náttúrufræðing á Egilsstöðum, kemur fram að jötungíma hafi fyrst fundist á Íslandi árið 1988, þá í Árnessýslu og Eyjafirði, nærri samtímis. Fyrstu jötungímurnar á Austurlandi fundust 2009, annars vegar við Hafursá á Völlum og Sigurðargerði í landi Áss í Fellum.

Fram kemur að sveppirnir hafi gjarnan fundist nærri aflögðum íbúðar- eða gripahúsum en jötungíman við Sigurðargerði vex á gróinni fjárhúsatótt sem rutt var yfir í kringum 1990. Brynjólfur telur að fjárhúsin hafi ekki verið notuð frá því um 1950.

Hann rifjar líka upp þegar hann sá jötungímuna þar fyrst. „Ég hélt fyrst að þetta væri dautt lamb. Úr fjarlægð var þetta stór hvítur blettur. Mig minnir líka að fyrstu sveppirnir hafi verið þrír og miklu stærri en þessi,“ segir hann og bætir við að jötungíman hafi komið fram 3-4 sinnum á þessum tíma.

Jötungímur hafa síðan fundist víðar um land. Árið 2020 kom sveppurinn fram við Bragðavelli í Hamarsfirði og 2022 við Hjarðarhaga á Jökuldal.

Jötungíma ber fræðiheitið „calvatia (Langermannia) gigantea“. Aldin hennar er belg- eða kúlulaga, gjarnan flatvaxið og ílangt. Hérlendis er það 20-60 sm. en allt að 150 sm. erlendis.

Af mynd sem Brynjólfur birti af jötungímunni má áætla að hún sé um 30 sm. á hæð og hátt í 50 sm. að lengd. Dýr virðist hafa kroppað í eitt horn hennar en hann kveðst ekki vita hvað þar hafi verið á ferðinni.

Í Sveppabókinni segir að jötungíman sé eins og aðrir físisveppir æt meðan hún sé ung og „einn slíkur stórsveppur sé góður málsverður handa stórfjölskyldu.“ Aðspurður segist Brynjólfur ekki hafa prófað að elda jötungímu.

Mynd: Brynjólfur Rúnar Gunnarsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.