Skip to main content

Kjötiðnaðarmenn munda hnífana í París

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. mar 2025 13:23Uppfært 28. mar 2025 13:32

Þrjú þúsund áhorfendur, hundrað og fimmtíu keppendur, sextán þjóðir. Einn keppendanna í aðalkeppninni er hin rammaustfirski kjötiðnaðarmaður Benedikt Þorvaldur G. Hjarðar.

Á mánudaginn kemur fer fram sjálft heimsmeistaramótið í kjötiðnaði á sjálfu Ólympíusvæðinu í París í Frakklandi og eitt keppnisliðanna kemur frá Íslandi. Þar um að ræða sjálft landslið kjötiðnaðarmanna og í þeim hópi Austfirðingurinn Benedikt Hjarðar en þess utan þeir Jón Gísli Jónsson, Dominik Przbyla, Guðmundur Bílddal, Davíð Clausen Pétursson og Hermann S. Björgvinsson.

Liðið hefur undirbúið sig fyrir þetta mikla mót í rétt tæpt ár og héldu utan fyrr í vikunni enda viðamikil dagskrá kringum þennan viðburð.

Fiðrildi í maga

Austurfrétt náði tali af Benedikt fyrr í dag og segir hann fiðring og fiðrildi í öllum mannskapnum enda ekki dags daglega sem menn mæti færustu kjötiðnaðarmönnum heims í einum og sama salnum.

„Ég viðurkenni það að það er aðeins farið að fara um mann og ekki síst eftir að við komum á staðinn og það er mikið í lagt hér alls staðar. Okkar keppni hefst á mánudagsmorgunn minnir mig klukkan 11 og þeir hér eru nú bara að breyta klukkunni sinni held ég í nótt svo að líklega er þá tveggja tíma mismunur í tíma ef fólk hefur áhuga að fylgjast með keppninni sem verður streymt á vef keppninnar.“

Margt að gera á skömmum tíma

Þegar blásið verður til leiks á mánudag hafa keppnisliðin þrjár og hálfa klukkustund til að vinna tiltekin verkefni og allan þann tíma er grannt fylgst með liðinu og liðsandanum af hálfu dómaranna.

„Þann tíma höfum við til að úrbeina hálft naut, hálft svín, heilt lamb og fimm kjúklinga. Við þurfum jafnframt á þessum tíma að marinera kjötið, gera fyllingar, búa til pylsur og kæfur, leggja á borð og skreyta það líka og auðvitað þurfum við að ganga vel um og hafa allt eins þrifalegt og hægt er. Það er því dæmt eftir fjölmörgum atriðum sem bæði tengjast kjötskurðinum sjálfum en ekki síður skiptir máli hvernig við bjóðum til borðs, hvort við notum fleiri hráefni í matinn en ekki en það fást fleiri stig ef við útbúum réttina með einhverju aukalegu umfram það sem þarf. Þá eru dómararnir líka að fylgjast með liðsandanum, hvernig við vinnum saman og svo framvegis. Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga.“

Benedikt er engu að síður bærilega bjartsýnn. Liðinu hefur tekist að bæta tíma sinn verulega á æfingum síðustu vikurnar og allir staðráðnir í að gera sitt besta. Beint streymi verður á keppnisdaginn á vef keppninnar sem finna má hér.

Íslenska liðið klárt til keppni í París á mánudaginn kemur og hugur í mönnum. Mynd Landslið kjötiðnaðarmanna