Kom til að kokka en stýrir nú Óbyggðasetrinu

Ella Saurén tók við sem framkvæmdastjóri Óbyggðaseturs Íslands í Fljótsdal fyrir rúmu ári. Hún réði sig sumarið áður til að sjá um eldhús setursins en röð atburða breyttu stöðu hennar.

Hin finnska Ella er meðal þeirra fjölmörgu útlendinga sem ráðið hafa sig til starfa í ferðaþjónustunni hérlendis á undanförnu ára. Saga hennar er þó um margt sérstök, hún réði sig sem kokk á Óbyggðasetrinu sem er á Egilsstöðum í Fljótsdal, innsta bænum í dalnum. Innan við ári síðar var hún orðin framkvæmdastjóri setursins og vart orðin hálf þrítug.

Á skíðum í skólann


Ella er fædd í borginni Espoo í Finnlandi sem hún lýsir sem svo að sé á stór-Helsinki svæðinu. Hún sé þó uppalin á landsbyggðinni, gekk í grunnskóla í Hämeenlinna sem er í nokkurra klukkustunda fjarlægð frá Helsinki í norður átt, en bjó í nálægu þorpi.

„Ég átti mjög hamingjuríka barnæsku, ég elskaði skólann og ég elskaði útiveru og geri enn. Ég elska líka að skíða og þegar ég var barn þá skíðaði ég í skólann, hvort sem þú trúir því eða ekki. Þetta er náttúrulega eins og sögurnar sem afar og ömmur segja barnabörnunum sínum,“ segir Ella hlæjandi.

Að loknu grunnskólanámi fluttist Ella aftur til Espoo, þar sem stærstur hluti fjölskyldu hennar býr, og gekk þar í framhaldsskóla. „Eftir það sótti ég um í kokkanámi, því ég elska matargerð. Ég var ekki alveg viss á þessum tíma um hvað ég vildi gera en sá fljótt að ég hafði valið hárrétt.“

Skólinn var að sögn Ellu mjög góður og mikill metnaður lagður í námið. Hún hafi fengið tækifæri á að ferðast víða í náminu, til Rómar þar sem hún kynntist sjálfbærni við matvælaframleiðslu og rekstur, og síðar einnig til Portúgal. Ferðin til Portúgal reyndist afdrifarík því í henni bauðst Ellu starf í veitingageiranum þar í landi.

Tungumál lærast merkilega fljótt þegar öskrað er á fólk


Ella flutti því að heiman í fyrsta skipti að lokinni útskrift í kokkanáminu, aðeins 19 ára gömul, til Lissabon í Portúgal. Þar vann hún hjá matreiðslumanni sem hafði unnið sér það til frægðar að fá tvær Michelin stjörnur á veitingastaðinn sinn, en Michelin stjörnur eru einhver mesta gæðavottun sem hægt er að hljóta í veitingarekstri.

„Þetta var mikil reynsla. En ég var svo heppin að flytja með vinkonu minni frá Finnlandi sem fékk vinnu á öðrum veitingastað í Lissabon og við leigðum saman. Það var okkur mikill styrkur, við gátum líka talað saman á finnsku heima við því að í eldhúsinu var mjög mikilvægt að tala á portúgölsku. Ég skildi hana auðvitað ekki en gerði mitt besta og einhvern veginn gekk það allt saman.“

Ella segir að hún hafi ekki kunnað neitt í portúgölsku, né heldur skyldu tungumálunum spænsku eða ítölsku áður en hún flutti út. Hún hafi þurft að læra jafnóðum. Spurð hvort hún tali nú lýtalausa portúgölsku segist hún hafa gleymt flestu.

„En ef ég færi í portúgalskt eldhús og byrjaði að elda hugsa ég að ég myndi skilja flest. Þú lærir tungumál merkilega hratt þegar einhver er að öskra á þig,“ segir hún hlæjandi og vísar til þeirrar staðalmyndar, sem ýmislegt er að hennar sögn til í, að yfirkokkar standi á garginu á undirmenn sína í eldhúsum veitingastaða. Ella tekur fram að þetta sé þó ekki eitthvað sem hún hafi innleitt í starfsemi Óbyggðaseturs.

Akstursþjálfun í gegnum heimsendingar


Eftir tæpt ár í Portúgal breyttust aðstæður finnsku vinkvennanna og Ella ákvað að ferðast til Suðaustur Asíu. Hún kom aftur heim til Finnlands og ætlaði síðan að halda flakkinu áfram en Covid-faraldurinn breytti því.

„Ég var samt svo heppin að ég fékk vinnu, komin heim til Finnlands, á veitingastað sem ég hafði unnið á með skóla. Þegar veitingastöðum var hins vegar lokað í faraldrinum urðum við að breyta rekstrinum í heimsendingarþjónustu. Því miður varð að segja upp starfsfólki svo að það vorum bara ég og yfirmaður minn sem sáum um reksturinn. Ég get þó þakkað því að ég lærði loks að keyra almennilega, því ég eyddi hálfum deginum í að keyra út máltíðir.“

Sögur um Óbyggðasetrið í ísbaði og við eldstæði


En þegar faraldrinum linnti fór hugur Ellu aftur á flakk og að þessu sinni endaði hún á Íslandi. „Ég hafði heyrt af Óbyggðasetrinu úti í Finnlandi, ári áður. Ég var í gönguferð í þjóðgarði og kom að eldstæði þar sem fyrir voru aðrir ferðalangar. Ég byrjaði að tala þar við konu, sem er mjög óvenjulegt fyrir okkur Finna sem höldum okkur yfirleitt útaf fyrir okkur.

Hún sagði mér að hún ynni á Íslandi á sumrin, hún var að sinna hestum fyrir Denna [Steingrím Karlsson, einn stofnenda og þáverandi framkvæmdastjóra Óbyggðaseturs Íslands]. Við áttuðum okkur á að við værum nágrannar í garðinum og líka að við hefðum báðar áhuga á ísböðum. Við fórum seinna saman í ísbað og hún hélt áfram að segja mér frá Óbyggðasetrinu, sem ég var forvitin um.

Síðan kom að því að mér leið eins og ég þyrfti að skipta um vinnuumhverfi og upplifa eitthvað nýtt. Ég hafði þá í langan tíma verið með Óbyggðasetrið á bak við eyrað, mér leið eins og ég yrði að koma hingað. Svo ég fékk upplýsingar frá konunni og sótti um.“

Ella kom austur í maí 2022 og leið það vel um sumarið að hún fann hún vildi ekki fara. Henni var svo boðin áframhaldandi vinna um haustið sem hún þáði. Vorið 2023 veiktist Denni alvarlega og var Ellu þá boðið að taka við hans starfi.

„Ég hafði blendnar tilfinningar fyrir því. Í aðra röndina þótti mér auðvitað mjög erfitt að sjá á bak honum, sem hafði byggt upp setrið og hafði mótað sýnina á starfsemina, var sálin í rekstrinum. Á sama tíma leið mér eins og hann hefði ráðið mér nógu heilt til að ég gæti tekist á við þetta verkefni þrátt fyrir að ég þyrfti auðvitað að reiða mig á aðstoð annarra. Við komumst í gegnum sumarið, þó það hafi verið gríðarleg vinna, en það gekk bara vel,“ segir Ella.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.