Draumar, Konur og Brauð frumsýnd á Austurlandi
Ný leikin heimildarmynd um framlag þeirra kvenna sem reka kósí kaffihús víða á landsbyggðinni verður frumsýnd austanlands á fimmtudaginn kemur. Einn hluti myndarinnar er tekinn í Kaffi Nesbæ í Neskaupstað og allnokkrir Norðfirðingar koma við sögu.
Myndin er hugarfóstur þeirra Sigrúnar Völu Valgeirsdóttur og Svanlaugar Jóhannsdóttur sem báðar bæði leika í og leikstýra Draumar, Komur og Brauð. Þemað er ferðalag tveggja kvenna um landið þar sem þær koma við í mismunandi kaffihúsum á landsbyggðinni og kynnast lífi, draumum og áskorunum þeirra kvenna sem reka kaffihúsin fimm sem um ræðir. Í öllum tilvikum leika kaffihúsaeigendurnir sig sjálfa og það á líka við um Sigríði Þórbjörgu Vilhjálmsdóttur, Siggu, í Kaffi Nesbæ í Neskaupstað.
Formleg frumsýning á myndinni fór fram í apríl síðastliðnum í Bíó Paradís í Reykjavík við góðar undirtektir en klukkan 18.30 á fimmtudagskvöldið verður frumsýning austanlands í Valhöll á Eskifirði og þangað allir velkomnir. Myndin var styrkt af Kvikmyndamiðstöð Íslands en stór styrktaraðili var einnig SÚN í Neskaupstað.