Konur fjárfestum koma til Egilsstaða

Í upphafi árs 2023 ýtti Arion banki úr vör stóru átaksverkefni í því skyni efla sparnað og lífeyriseign kvenna og stuðla að aukinni þátttöku þeirra á fjármálamarkaði. Verkefnið nefnist Konur fjárfestum og hefur þann tilgang að fræða konur um allt sem tengist fjármálum og hvetja þær til að auka við þekkingu sína á fjármálum og fjármálamarkaði og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd, meðal annars með því að stofna fyrirtæki.

Snar liður í átakinu eru sérstakir viðburðir, sérstaklega ætlaðir konum, sem haldnir hafa verið víða um land á síðustu misserum. Á fjórða þúsund kvenna hafa nú þegar sótt fjölbreytta viðburði átaksins.

Á morgun, miðvikudaginn 30. október, er röðin komin að Egilsstöðum, þegar næsti viðburður í röðinni verður haldinn á Berjaya Hótel Héraði, Miðvangi 1-7.

Margs konar rök fyrir aukinni þátttöku kvenna á fjármálamarkaði


Snædís Ögn Flosadóttir er forstöðumaður á mörkuðum hjá Arion banka og ein kvennanna þriggja sem koma munu fram á viðburðinum á Berjaya Hótel Héraði.

„Það er einfaldlega samfélaginu til góða að konur fjárfesti,“ segir Snædís, innt eftir því hvers vegna Arion banki líti á auknar fjárfestingar kvenna sem stærsta samfélagslega verkefni sitt í augnablikinu.

„Ég get nefnt tvær megináæstæður fyrir því hvers vegna þetta er svona mikilvægt,“ segir Snædís. „Fyrri ástæðan af persónulegum meiði, þar horfum við á einstaklinginn. Við viljum einfaldlega að hver kona sé fjárhagslega sjálfstæð og geti tekið ákvarðanir um sig og sitt líf. Það er til dæmis lykill að farsælli framtíð að leggja reglulega í sparnað.“

„Seinni ástæðan er af samfélagslegum toga. Með því að fjárfesta tökum við virkan þátt í því að fjármagna samfélagið okkar. Fjárfestingar knýja áfram atvinnulífið í landinu, t.d. þegar við fjárfestum í skráðum félögum eða hlutabréfasjóðum, og eins fjármagna þær ríki og sveitarfélög í gegnum skuldabréfaútgáfur.
Með því að vera virkir þátttakendur á þessum markaði höfum við konur mótandi áhrif á samfélagið okkar og sitjum nær borðinu þegar kemur að ákvarðanatöku. Við vitum að ákvarðanir eru teknar af þeim sem stýra fjármagninu og það skiptir öllu máli að við höfum fleiri en eitt kyn við það borð þegar við mótum og sköpum framtíðina.“

Fjölbreytt dagskrá


Í upphafi viðburðarins mun Snædís Ögn segja stuttlega frá Konur fjárfestum verkefninu og leiða gesti í gegnum grunninn að fjármálum og fjárfestingum, tæpa á ýmsum lykilhugtökum og útskýra hvernig byrja megi að fjárfesta í sjóðum, hlutabréfum og skuldabréfum. Næst deilir Helga Sigurrós Valgeirsdóttir, forstöðumaður á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði Arion banka, af reynslu sinni og fer yfir praktísku hliðina á því hvernig þú stofnar fyrirtæki. Að lokum ræðir Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, forstjóri Varðar, um hvers vegna mikilvægt sé að vera rétt tryggður. Fyrirlesturinn er um klukkustund, spjall, spurningar og léttar veitingar í kjölfarið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.