Konurnar yfirgáfu verkalýðsfélagið eftir að karlarnir studdu þær ekki í verkfalli

Konur á Seyðisfirði stofnuðu sitt eigið verkalýðsfélag þar sem karlarnir í félagi staðarins sýndu þeim takmarkaðan stuðning. Algengt var að taxtar kvenna væru helmingi lægri heldur en karlanna.

Seyðisfjörður var framarlega í íslenskri verkalýðsbaráttu í kringum aldamótin 1900. Þar var fyrsta verkamannafélagið með lögum og stofnskrá stofnað árið 1896. „Seyðisfjörður var lifandi bær, þarna voru skipaferðir og uppgrip en líka miklar sveiflur í atvinnulífinu,“ segir Unnur Birna Karlsdóttir, sagnfræðingur og framkvæmdastjóri Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Egilsstöðum.

Hún hefur að undanförnu safnað heimildum um verkakonur á Austurlandi á fyrri hluta 20. aldar og sagði frá athugun sínum á umhverfi þeirra á Seyðisfirði á ráðstefnu um kvenna- og kynjasögu sem haldin var þar í byrjun mánaðarins.

Verkamannafélagið Fram


Verkamannafélag Seyðisfjarðar varð ekki langlíft en árið 1907 var stofnað Verkamannafélagið Fram, sem starfaði fram til 2001 að það sameinaðist öðrum austfirskum verkalýðsfélögum. Fyrsta konan gekk í Fram árið 1909.

Þær voru þó alltaf fáar og lítt sýnilegar í ráðum þess og nefndum. Þannig var á sínum tíma stofnuð nefnd innan félagsins til að semja um kauptaxta kvenna. Í henni sátu þrír karlar. Unnur Birna sagði af að heimildum væri ekki hægt að ráða hvort konur hefðu verið á þeim fundi þar sem nefndin var skipuð en tillagan hefði verið samþykkt samhljóða.

Hún bætti við að konur úr félaginu hefðu strax árið 1926 farið fram á að kauptaxtar kvenna og karla yrðu jafnaðir en þeir voru þá allt að 50% lægri. Ekki væru heimildir um miklar umræður innan félagsins. Unnur Birna benti þó á að konurnar hefðu oft verið í vinnu hjá körlum sínum sem réttu skrimtu með eigin útgerð. Þær hefðu gert sér grein fyrir að vasar viðsemjandans væru ekki djúpir.

Fyrsta konan var kosin í stjórn þess árið 1933. Samkvæmt tillögu fulltrúaráðs um stjórn áttu aðeins að vera karlar í stjórninni en á aðalfundinum kom fram tillaga úr sal um annað sem var samþykkt. Á þeim tíma var búið að fjölga í nefndinni um málefni verkakvenna þannig að tvær konur bættust við. Um leið hafði þeim fjölgað í félaginu. En það var ekki varanlegt.

Verkakvennafélagið Brynja


Verkakvennafélagið Brynja var stofnað árið 1937 af konum sem ekki voru í Fram en í kjölfarið gengu aðrar konur úr Fram í Brynju. Unnur Birna sagði að kveikjan hefði skortur á stuðningi karlanna í Fram við kröfur verkakvenna. Taxti við síldarsöltun hafði verið hækkaður en ekki virtur og fóru konurnar í verkfall til að knýja á um það. Karlarnir grófu undan baráttunni með að ganga í þeirra störf.

Unnur Birna sagði að þrátt fyrir þetta hefðu félögin síðar unnið ágætlega saman. Engar konur voru þó í Fram á meðan Brynja starfaði fram til 1966. Unnur Birna lýsti Brynju sem merkilegu félagi, það hefði meðal annars sent fyrstu konuna sem varð fulltrúi á þingi Alþýðusambandi Íslands, samið um taxta á þvotti fyrir setuliðið á Seyðisfirði í seinni heimsstyrjöldinni og komið að félagsmálum í bænum með að skipuleggja hátíðahöld 17. júní.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.