Orkumálinn 2024

Kór Fjarðabyggðar syngur lög Inga T.

Út er kominn geisladiskur með nokkrum af þekktustu og vinsælustu lögum Inga T. Lárussonar. Það er  Kór Fjarðabyggðar sem gefur diskinn út en kórinn saman stendur af söngfólki, sem að mestu leyti kemur úr kirkjukórum í  Fjarðabyggð.  Kórinn var stofnaður árið 1998 í því augnamiði að stofna til gagnkvæmra kynna kórfólks í Fjarðabyggð og til að hægt væri að takast á við stærri og metnaðarfyllri flutning á kórverkum. Kórinn hefur staðið fyrir og tekið þátt í flutningi á mörgum verkum, bæði  kirkjulegum og veraldlegum. Auk þess hefur hann tekið þátt í flutningi stærri verka með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Stjórnendur kirkjukóranna í Fjarðabyggð hafa að langmestu leyti haft veg og vanda af starfi hans, en stundum hafa verið fengnir gestastjórnendur til að lyfta undir og krydda starfið. Einvalalið hljóðfæraleikara leikur undir á diskinum, en útsetningar fyrir hljómsveitina gerði Norðfirðingurinn Stefán Arason. Einsöngvari í þremur lögum er Tinna Árnadóttir, sem er fædd og uppalin á Eskifirði. Kári Þormar stjórnar kórnum en hann er forstöðumaður Kirkju- og menningarmiðstöðvar Fjarðabyggðar á Eskifirði. Kári stundaði nám í píanóleik hjá Jónasi Ingimundarsyni og orgelleik hjá Herði Áskelssyni. Textahefti fylgir diskinum og er þar einnig að finna æviágrip textahöfundanna og að sjálfsögðu er fjallað um skáldið Inga T. Lárusson. Magnús Ingimarsson útsetti flest lögin á diskinum en einnig Karl Billich og Ágúst Ármann Þorláksson. Upptökur fóru fram í Kirkju- og menningarmiðstöðinni í Fjarðabyggð í apríl síðastliðinn, undir stjórn Sveins Kjartanssonar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.