Kæra árás á framkvæmdastjóra
Árás veitingamannsins á Café Margrét á Breiðdalsvík á framkvæmdastjóra AFLs í morgun verður kærð til lögreglu.
Þetta kom fram í hádegisfréttum útvarps. Í frétt á vef AFLs segir að veitingamaðurinn hafi komið æstur inn á skrifstofu framkvæmdastjórans, Sverris Mars Albertssonar, í morgun og sópað gögnum af borði hans. Ástæða æsingsins var frétt 24 stunda í seinustu viku þar sem birt var mynd af veitingahúsinu með umfjöllun um félagsleg niðurboð starfsfólks á veitingahúsi á Austurlandi. Eftir hreinsunina kom til stympinga milli mannanna sem lauk með að tveir aðilar komu í vettvang í viðbót. Lögreglan kom og tók skýrslu skömmu eftir að veitingamaðurinn fór út í morgun.
Ljósmyndari Austurgluggans kom skömmu síðar á vettvang. Blöð voru út um allt skrifstofugólfið en annar helmingur skrifborðsins auður. Starfsmenn í nágrenninu voru nett skelkaðir og hafði einn þeirra á orði að þetta hefði verið óvenju fjörugur mánudagsmorgunn.
Frétt AFLs um árásina
Frétt Austurgluggans um viðskipti AFLs og Café Margrétar í sumar
Afrit af frétt um óánægju þýskra stúlkna á Café Margrét, Fréttablaðið 2005. Af Málefnin.com