Kyrrðarstund í Egilsstaðakirkju vegna forvarnardags sjálfsvíga

Tíundi september ár hvert er Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga sem bæði er helgaður baráttu gegn sjálfsvígum en ekki síður til að minnast þeirra er fallið hafa fyrir eigin hendi. Deginum verður gert hátt undir höfði bæði með sérstakri kyrrðarstund í Egilsstaðakirkju annað kvöld og með fyrirlestri á neðri hæð Heilsugæslunnar á Egilsstöðum eftir hádegið.

Það eru Píeta-samtökin sem meðal annars standa að framtakinu en þar er mikil og góð reynsla og margvísleg þjónusta og aðstoð veitt til þeirra sem eiga um bágt að binda af einhverjum orsökum og eru í sjálfsvígshættu.

Einn sá sem þekkir þann veruleika er verkefnastjóri Píeta, Benedikt Þór Guðmundsson, sem heldur erindi kl 14.30 og síðar hugvekju um kvöldið þar sem hann deilir sinni eigin reynslu með gestum.

„Það er auðvitað Gulur september [samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum] og við á leið austur og vonum að innan tíðar getum við farið að opna Píeta-aðstöðu á Austurlandi. Það reyndar ekkert ákveðið hvar þar verður en það er í stefnuskrá Píeta að opna aðstöðu og bjóða þjónustu í öllum landshlutum og við erum núna á Akureyri, Ísafirði og í Reykjavík en það vantar enn aðstöðu fyrir austan. Okkar vonir standa til að hægt verði að opna fljótlega á Austfjörðum og kannski verður þessi heimsókn til þess að það opnist einhverjir gluggar í því tilliti. Við ætlum að heimsækja nemendur Menntaskólans á Egilsstöðum sem hafa stutt okkur dyggilega og svo vera með í þessari kyrrðarstund í kirkjunni um kvöldið.“

Kyrrðarstundin í Egilsstaðakirkju hefst klukkan 20 og í viðbót við reynslusögu Benedikts ætla prestar kirkjunnar að leiða stundina og flytja íhugunarorð. Flutt verður falleg tónlist og öllum gefst kostur á að tendra kertaljós í minningu, von og bæn. Mynd Egilsstaðaprestakall

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.