Landshlutakeppnin Íslenskt eldhús 2009
Matreiðslukeppni landshlutanna, Íslenskt eldhús 2009, fer fram sunnudaginn 10. maí nk. á sýningunni Ferðalög og frístundir sem haldin verður í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal 8.-10. maí. Keppnin er haldin af Klúbbi matreiðslumeistara og sýningunni Ferðalögum og frístundum. Landshlutarnir senda keppendur og dómara til þátttöku og notar hver keppandi hráefni sem tengist viðkomandi landshluta. Markmið keppninnar er að kynna það besta sem hver landshluti hefur upp á að bjóða í mat og vekja athygli á hefðbundnum jafnt sem óhefðbundnum kræsingum úr íslensku matarkistunni.
Tilkynnt verður um úrslit við formlega athöfn í lok sýningarinnar, þar sem veitt verða verðlaunin „Íslenskt eldhús 2009“. Keppt verður fyrir opnum tjöldum, þannig að sýningargestum gefst færi á að fylgjast með matreiðslumeisturunum að störfum.
Framkvæmdaraðili sýningarinnar Ferðalaga og frístunda er AP almannatengsl og samstarfsaðilar iðnaðarráðuneytið, Ferðamálasamtök Íslands, Ferðamálastofa, Golfsamband Íslands og Icelandair. Starfsmenn AP almannatengsla hafa áralanga reynslu í stjórnun stærri jafnt sem minni viðburða og hafa m.a. séð um sýningarnar Verk og vit 2006 og 2008 og Tækni og vit 2007. Nánari upplýsingar er að finna á www.ferdalogogfristundir.is.
Ljósmynd: Alfreð Ómar Alfreðsson, forseti Klúbbs matreiðslumeistara, Áslaug Pálsdóttir, framkvæmdastjóri AP almannatengsla, og Margrét Sveinbjörnsdóttir, kynningar- og verkefnastjóri sýningarinnar Ferðalög og frístundir, við undirritun samstarfssamnings um matreiðslukeppnirnar þrjár á Ferðalögum og frístundum.