Les í spil og rúnir fyrir Austfirðinga

Sigrúnu Halldóru Jónsdóttur þekkja líklega fleiri á nafninu Sigrún Dóra Shaman. Það er vinnunafn hennar þegar hún tekur að sér, samhliða hefðbundinni vinnu, að spá fyrir öllum sem það vilja á ýmsum mannamótum.

Sigrún viðurkennir hreinskilnislega að hafa átt á brattann að sækja bæði andlega og fjárhagslega allar götur frá Hruninu 2008 og var hún beinlínis á hrakhólum í mörg ár í kjölfarið.

„Eftir allskonar brölt var ég leidd hingað í Egilsstaði og mun staldra hér við þar til annað kemur í ljós. Það hentar mér afskaplega vel að búa og lifa einfalt á meðan ég næ fótfestu í lífinu. Ég er þess vegna afar þakklát fyrir kotið mitt og starf hér á Tjaldsvæðinu.“

Fátt er svo með öllu illt að ekki boði eitthvað gott og í öllum erfiðleikunum uppgötvaði Sigrún að hún hefði líkast til meðfædda hæfileika til að lesa í og skynja sálir.

„Ég neyddist til að líta meira inn á við og uppgötvaði þar hæfileika í að lesa í sálir, meðal annars með spilum. Ég skynja og fæ skilaboð sem ég bara veit, án þess að vita af hverju. Ég hef alltaf skynjað líðan annarra og haft þörf fyrir að hjálpa öðrum að líða betur. Ég tók líka meðvitaða ákvörðun um að sjá aðeins það góða í öllum og öllu og er aðeins sendiboði góðra afla.

Þennan tíma hér nýti ég umfram allt í sjálfa mig enda ekki vanþörf á. Lengi vel barðist ég stöðugt gegn ranglæti með misjöfnum árangri og oftar en ekki snérist það gegn mér. Í dag legg ég mikla áherslu á að upphefja allt sem gott er og hundsa allt annað sem engum gerir gott. Ég legg mig í lima við að hrósa, senda og sýna ást og þakklæti þar sem það á heima.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.