Lesið úr Biblíunni sleitulaust í alla nótt
Um tuttugu ungmenni á Fljótsdalshéraði hófu maraþonlestur úr Biblíunni um kl. 20 í kvöld og ætla að lesa sleitulaust uns bjarmar af morgni, eða til kl. 08 í fyrramálið. Þau eru í kristilega æskulýðshópnum Bíbí og söfnuðu áheitum fyrir lesturinn, en ætlunin er að verja því fé sem safnast til að hitta jafnaldra í æskulýðsstarfi á Vopnafirði.
Stefán Bogi Sveinsson og Þorgeir Arason æskulýðsleiðtogar eru krökkunum til halds og trausts í næturlestrinum. Lesið er úr Davíðssálmum, Ljóðaljóðunum og fleiru, en víst er að Biblían myndi duga til þrotlauss upplestrar fleiri nætur en eina. Hver lesari stendur í púlti meðan fjórir til fimm eru tilbúnir í senn, en aðrir hvílast fyrir átök næturinnar.
Gestir eru velkomnir í kirkjuselið í Fellabæ til að hlýða á lesturinn.
Auðbjörg Hulda Þórarinsdóttir las úr Biblíunni þegar Austurgluggann bar að garði í kvöld. Fleiri voru tilbúnir í lestur og enn aðrir hvíldust fyrir lestur næturinnar.
Ljósmyndir/Steinunn Ásmundsdóttir