Listafólk sækir heim á Innsævi

Yfir 30 viðburðir eru á dagskrá listahátíðarinnar Innsævis sem haldin verður í Fjarðabyggð í þriðja sinn í sumar og þeim mun fjölga. Sérstök áhersla er lögð á að fá listafólk með austfirskar tengingar, sem gengið hefur sérlega vel í ár.

„Hátíðin dreifir sig yfir alla Fjarðabyggð því við viljum bjóða upp á fjölbreytta dagskrá, frá Mjóafirði til Breiðdalsvíkur.

Við viljum að fólk upplifi eitthvað nýtt sem skapi samtal um leið og við búum til vettvang fyrir listafólk í Fjarðabyggð til að sýna verk sýn. Við fáum brottflutta listamenn að, sem hefur heppnast afskaplega vel í ár.

Síðan erum við með verk fólks sem hefur flutt hingað, bæði innanlands og utan auk þess að bjóða listafólki að til að sýna,“ segir Jóhann Ágúst Jóhannsson, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar og listrænn stjórnandi Innsævis.

Love Guru og Sæskrímslin


Sem dæmi um heimkomu brottfluttra er opnun tvöfaldrar listsýningar Sædísar Emblu Jónsdóttur og Svanlaugar Aðalsteinsdóttur sem opnar í Þórsmörk í Neskaupstað á sunnudag. Fyrsti viðburðurinn verður hins vegar síðdegis á laugardag þegar Sæskrímslin, samvinnuverkefni sirkuslistahópsins Hringleiks og leikmunasmiðjunnar Pilkington Props, koma að landi á Eskifirði.

„Þetta er viðburður sem byrjaði við setningu Listahátíðar í Reykjavík og lýkur hringferð sinni hjá okkur. Þau njóta aðstoðar ungmenna af Austurlandi. Þetta verður mikið sjónarspil,“ segir Jóhann.

Um kvöldið verður stuð með tónlistarmanninum Love Guru í Egilsbúð og plötusnúðnum Nonna Clause, sem er uppalinn Norðfirðingur, í Beituskúrnum. „Love Guru fannst sérstakt að koma á listahátíð en listin spannar allt litrófið. Við erum búin að panta gular blöðrur og fána og flamingóa til að skreyta Egilsbúð.“

Veita íbúum aðgengi að menningu og listum


Innsævi er haldin á tveggja ára fresti og er þetta í þriðja sinn sem hún er haldin. Hún stendur til 20. júlí en á þeim tíma eru skráðir um 30 viðburðir. Þeim gæti fjölgað því opið er fyrir að henda upp viðburðum undir hatti hennar þegar svo ber undir. Þannig mun Sædís taka þátt í 17. júní hátíðahöldunum sem að þessu sinni verða á Stöðvarfirði.

Eins dvelja nokkrir listamannanna sem hana sækja í einhvern tíma í Fjarðabyggð, ýmist til að vinna að list sinni eða standa fyrir vinnusmiðjum. Dæmi um það er myndlistarfólkið Páll Ivan og Gulla sem verða með lifandi vinnustofu í Bragganum við Stríðsárasafnið á Reyðarfirði í viku.

„Við finnum fyrir ánægju meðal íbúa með hátíðina. Þeir eru stoltir af að svona viðburður eigi sér stað í samfélaginu. Það er gaman að geta drepið niður fæti á öllum stöðum, við finnum að Mjófirðingar eru ánægðir með að boðið sé upp á list þar um sumarið. Við vitum að fólki finnst vænt um greitt aðgengi að listum og við tryggjum það á þeim tíma sem auðveldast er að koma á milli staða.“

Fáskrúðsfirðingurinn Marc Alexander er meðal þeirra sem sýna á Innsævi í ár.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.